Ekki stíll heldur hefð

Íslenskur jólabjór.
Íslenskur jólabjór. mbl.is/Árni Sæberg

Jólabjór í verslunum ÁTVR hefur verið rifinn út síðan hann kom í hillurnar þann 14. nóvember. Sala á jólabjór hefur aukist um 5.850% á þeim 25 árum sem bjór hefur verið leyfður hér á landi.

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og annálaður bjóráhugamaður, segir að jólabjórinn sé ein af fáum hefðum sem Norðurlöndin hafi lagt til á hlaðborð bjórmenningar heimsins. „Jólabjór er ekki stíll heldur hefð. Það er löng hefð víða um Skandinavíu að búa til jólabjór sem er í flottari flöskum og með ögn betri hráefnum eins og gengur og gerist í matvælum almennt um jólin.“

Fyrsti jólabjórinn er þó ekki frá Norðurlöndum heldur er það Stella Artois bjórinn sem kom á markað 1926. Hann var markaðsettur í Kanada sem jólabjór með því að setja jólastjörnu í miðann. Ekkert annað. Hann var áfram ljós og léttur lagerbjór. „Það er hægt að fá allskonar bjór sem jólabjór ef farið er sunnar í Evrópu. Hjá Norðurlandabúum er hægt að rekja jólabjórsneyslu langt aftur í tímann. Jólablótin hjá heiðnum mönnum voru drykkjusamkomur, gamla ásatrúin gerði ráð fyrir áfengi á samkomum. Það var hreinlega talið afbrot að drekka ekki. Þetta heldur sér þrátt fyrir kristni.“

Erfitt að finna vín með hangikjötinu

Stefán bendir einnig á matinn sem Norðurlandabúar borði á hátíð ljós og friðar. Það séu fá vín sem ná utan um þann mat, þar henti bjórinn mun betur.

„Það er auðvitað kaldara á norðurslóðum og jólin eru tími reykta kjötsins, ekki bara á Íslandi heldur í Skandinavíu. Í gamla daga var af þessu tilefni bruggaður aðeins dekkri bjór, ögn sterkari og hann hafður sérlega máttugur í kringum jólin.

Í seinni tíð kom þetta með mjög góðri markaðssetningu sem Tuborg byrjar með. Nú er búið að negla það rækilega inn í kollinn á fólki að þegar talað er um jólabjór þá þarf hann að vera svolítið reyktari, með karamellu, rauði liturinn er kominn inn, finnst mér, og hann á að vera sterkari til að fá smá yl í kroppinn.

Jólabjórinn passar líka svo ofboðslega vel við þennan mat sem við borðum hér á norðurslóð. Það er í raun heila málið. Hátíðarréttirnir okkar og í Skandinavíu eru þannig að vín virka ekkert með þeim.

Það er erfitt að velja vín með hangikjöti. Flestir bjórar ráða reyndar ekkert við hangikjöt heldur og í staðinn fyrir að drekka vatn þá fórum við Íslendingar að blanda malt og appelsín.“

Stefán segir að hann sé feginn því að bjórmenning sé orðin vinsælli en gamla góða jólaglöggið. „Ég verð nú að segja að það er framför. Ég sem bjóráhugamaður fagna slíkum tíðindum.

Bjórsmekk Íslendinga hefur líka fleygt fram á síðustu árum. Brugghúsin komast upp með að setja á markað hluti, sem eru framsæknari, kryddaðari og annað, sem aldrei hefðu selst fyrir nokkrum árum. Fyrir vikið eru brugghúsin að nota negul, krydd, furunálar, viðarkubba eða jafnvel piparkökur í bjórana sína. Því hafa opnast möguleikar í breidd og núna er til dæmis hægt að vera með 20 tegundir án þess að þær séu eins.“

Jólabjór.
Jólabjór. Rósa Braga
Jólabjór 2011.
Jólabjór 2011. Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert