Frá manni til hetju

Helgi situr fyrir með tökuliði bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN í Reykjavík.
Helgi situr fyrir með tökuliði bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN í Reykjavík.

Þáttagerðarmenn frá bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN hafa dvalið á Íslandi undanfarna daga til að ræða við Helga Sveinsson, heims- og Evrópumeistara fatlaðra í spjótkasti og prófunarsérfræðing hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri, fyrir þáttinn „Human to Hero“.

Þátturinn, sem er um klukkutíma langur, nýtur mikilla vinsælda og í honum er rætt við íþróttafólk sem skarar fram úr á sínu sviði. Fjölmargir heimsfrægir íþróttamenn hafa komið fram í þættinum, til dæmis fótboltamaðurinn Gerard Pique, Kelly Slater brimbrettakappi, Felix Baumgartner ofurhug, Fernando Alonso ökuþór og maraþonhlauparinn Haile Gebrselassie. Sjónvarpsmennirnir leitast við að kanna hvað það er sem þarf til að ná sem bestum árangri og hvað það er sem drífur íþróttamenn, á borð við Helga, áfram.

Helgi er þó ekki fyrsti Íslendingurinn sem kemur fram í „Human to Hero“ því fjallað var um handboltakappann Ólaf Stefánsson í sama þætti sem sýndur var í desember í fyrra.
Einnig verður í þættinum fjallað um Ásgeir Sigurgeirsson sem keppir með þýska liðinu TSV Ötlingen í þýsku úrvalsdeildinni í skotfimi.

Helgi æfði handbolta þegar hann var yngri en þurfti að leggja skóna á hilluna eftir að hann fékk krabbamein tvítugur að aldri með þeim afleiðingum að aflima þurfti annan fót hans fyrir ofan hné. Helgi byrjaði að æfa frjálsar íþróttir fyrir nokkrum árum og er óhætt að segja að hann hafi náð undraverðum árangri á skömmum tíma þar sem hann tryggði sér heimsmeistaratitilinn í spjótkasti á heimsmeistaramóti fatlaðra sumarið 2013. Í lok ársins var hann valinn Íþróttamaður Reykjavíkur.

Afrek Helga og baráttuandi hafa vakið athygli út fyrir íþróttaheiminn og munu sjónvarpsáhorfendur um allan heim fá að kynnast Helga þann 10. desember nk. þegar þátturinn verður sýndur á CNN.

Helgi Sveinsson er heims- og Evrópumeistari í spjótkasti fatlaðra.
Helgi Sveinsson er heims- og Evrópumeistari í spjótkasti fatlaðra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert