Brýnt lýðheilsumál að seinka klukkunni

Klukkan á Íslandi er stillt einni klukkustund á undan sólarklukku.
Klukkan á Íslandi er stillt einni klukkustund á undan sólarklukku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er mjög brýnt lýðheilsumál að seinka klukkunni um eina klukkustund. Við erum að skapa okkur vanda með núverandi fyrirkomulagi sem hefur meðal annars slæmar afleiðingar fyrir heilsu fólks. Þetta sagði Björg Þorleifsdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, á fyrirlestri sínum um klukkuþreytu á meðal Íslendinga fyrr í dag.

Í nær hálfa öld hefur klukkan á Íslandi verið stillt einni klukkustund á undan sólarklukku, sem ræðst af afstöðu jarðar við sól vegna snúnings jarðar um möndul sinn. Merki eru um að þetta valdi svokallaðri klukkuþreytu (e. social jetlag) meðal þjóðarinnar. 

Klukkuþreyta stafar af misræmi á milli staðarklukku og sólarklukku, og er það viðvarandi ástand sem getur m.a. valdið þreytu og einbeitingarskorti. Þetta líkist flugþreytu (e. jetlag) sem margir finna fyrir þegar þeir fljúga yfir mismunandi tímabelti. 

Þing­menn allra flokka nema Vinstri grænna lögðu í síðasta mánuði fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að seinka klukk­unni á Íslandi um eina klukku­stund. Björg sagðist á fyrirlestrinum mjög hlynnt tillögunni. „Ég vona að það verði hreyfing á þessu og við fáum að njóta vafans og sjá hvaða áhrif það hefur.

Þurfum morgunbirtu til að vakna

Sólarupprás, hádegi og sólarlag er einni klukkustund seinna á Íslandi en náttúruleg sólarklukka segir til um og segir Björg það einna verst hvað varðar morgunbirtuna. Við þurfum hana til að vakna og ef klukkunni yrði seinkað þá gætum við vaknað við morgunbirtuna langt fram í nóvember.

Í fyrirlestrinum talaði Björg um að tímasetning svefns og vöku innan sólarhrings ákvarðast af lífklukkunni sem er stillt af sólarljósinu. Aðrir þættir sem taka mið af staðarklukku hafa einnig áhrif, en misræmi milli sólar- og staðartíma stuðlar að því að lífklukkan gengur ekki í takt við staðartíma.

Of fljót staðarklukka stuðlar að seinkun háttatíma og afleiðingin er sú að á vinnudögum sérstaklega, þegar fótaferðartíminn er fastur, styttist svefntíminn. Björg sýndi fjölmargar rannsóknir sem sýna sterk tengsl milli skerts svefns og margháttaðra heilsufarsvandamála.

Sofum styttra en aðrar þjóðir

Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar fara u.þ.b einni klukkustund seinna að sofa en jafnaldrar í öðrum löndum og sofa ívið skemur. Björg sagði yfirgnæfandi meirihluta ungs fólks á Íslandi með seinkaða lífklukku og með seinni dægurgerð en jafnaldrar þeirra í Evrópu.

Um helmingur ungmenna á aldrinum 16-19 ára á Íslandi hafa seinkaða dægurgerð og um 35% finna fyrir klukkuþreytu. Björg benti á 25% brottfall úr framhaldsskólum hér á landi og velti því upp hvort þetta gætu m.a. verið ástæður þess.

Björg sagði sólarklukkuna vera meginástæðu þess að lífklukka fólks hér á landi er seinkuð, en aðrir áhrifaþættir gætu þó verið erfðatengdir hjá einstaklingum. Þá sagði hún aldur, kyn, búsvæði og árstíðir jafnframt geta haft áhrif.

Þrátt fyrir að mestu áhrifin séu á ungmenni hér á landi benti Björg einnig á þau áhrif sem ósamræmið hefði á eldra fólk, og jafnvel ungabörn. Hún sagði eldra fólk hér á landi fara seinna að sofa en í nágrannalöndunum, og ungbörn sofa allt að 40 mínútum skemur.

Svefnleysi vaxandi áhyggjuefni

Þá sagði Björg ónógan svefn vaxandi áhyggjuefni. Hún sagði svefnleysið geta valdið dagsyfju og þreytu, en einnig gæti andleg geta fólk skerst. Benti hún á skerta athygli og áverkni, minni einbeitingu, lengri viðbragðstíma, eirðarleysi og auknar skapsveiflur sem afleiðingar þessa.

Rannsóknir sýna fylgni milli of stutts svefns og heilsufarsvandamála, m.a. offitu, hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki 2. Einnig hefur klukkuþreyta sýnt sig að vera áhættuþáttur fyrir þunglyndi, offitu, áhættu- og neysluhegðun eins og t.d. fíkniefna o.fl. 

Einnig nefndi hún nýjar niðurstöður um það að of lítill svefn hafi áhrif á tjáningu gena og þar með starfsemi frumnanna, sem gæti svo aftur leitt til sjúkdóma.

Svefnleysi hefur áþekk áhrif og áfengisdrykkja

Björg sagði fólk mishæft til að taka mark á sólarklukkunni, en almennt myndi styttri svefn á virkum dögum en frídögum þó valda viðvarandi þreytu og einbeitingarskorti. Þá sýni rannsóknir á athygli fram á það að of lítill svefn getur haft áþekk áhrif og áfengisdrykkja. Þannig samsvarar 0,1% alkóhól um 27 tíma vöku í viðbragðstíma.

Loks sagðist Björg mjög hlynnt því að klukkan hér á landi yrði seinkuð um eina klukkustund. „Við ráðum ekki við að stilla okkur eftir staðarklukkunni eins og hún er, og það er vísbending um að lífklukkan gangi ekki í takt við hana.“

Í farvatninu er viðamikil rannsókn á svefnvenjum Íslendinga.

Björg Þorleifsdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, á fyrirlestri sínum …
Björg Þorleifsdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, á fyrirlestri sínum um klukkuþreytu á meðal Íslendinga fyrr í dag. Kristinn Ingvarsson
Yfirgnæfandi meirihluti ungs fólks á Íslandi er með seinkaða lífsklukku.
Yfirgnæfandi meirihluti ungs fólks á Íslandi er með seinkaða lífsklukku.
Sólarupprás er einni klukkustund seinna á Íslandi en náttúruleg sólarklukka …
Sólarupprás er einni klukkustund seinna á Íslandi en náttúruleg sólarklukka segir til um. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert