Stakk mann í hjartastað í kannabisvímu

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest fimm ára fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir tvítugum karlmanni fyrir tilraun til manndráps. Hann stakk annan mann með hnífi í hjartastað undir áhrifum kannabis. Réð hending því ein að fórnarlambið lést ekki við árásina, að því er kemur fram í dómi Hæstaréttar.

Saksóknari áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og vildi að refsing mannsins, Leon Baptiste, yrði þyngd. Hæstiréttur staðfesti hins vegar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í sumar um að hann skyldi sæta fimm ára fangelsi og greiða fórnarlambinu eina milljóna króna í skaðabætur.

Baptiste var staddur í íbúð systur sinnar sunnudagsnóttina 30. mars þar sem hann hugðist gista, að því er kom fram við meðferð málsins fyrir dómi. Stakk hann fórnarlambið, sem hann kannaðist við, þar sem það sat í sófa með hníf í brjóstið vinstra megin, beint yfir hjartastað. Fór hnífurinn í gegnum brjóstvegginn, inn í lungnasekkinn og staðnæmdist við ytra yfirborð á gollurhúsi hjarta mannsins. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur kom fram að hending ein hafi ráðið því að hnífurinn gekk ekki inn í hjartað.

Hafði reykt mikið af kannabisefnum

Fram kemur í dómum að Baptiste segist ekki muna eftir verknaðinum. Hann hafi ekki ætlað sér að meiða manninn eða drepa. Hann játaði engu að síður að hafa stungið manninn. Geðlæknir var fenginn til að gera geðrannsókn á honum og í skýrslu hans kom fram að Baptiste hafi verið með vægar aðsóknarkenndar ofskynjanir í örfáar vikur fyrir verknaðinn. Ekki hafi hins vegar fundist neinar vísbendingar um alvarlegan geðsjúkdóm. Hann var handtekinn á slysadeild sömu nótt eftir að systir hans hafi ráðlagt honum að leita sér aðstoðar vegna andlegra veikinda.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist hann hafa verið undir áhrifum kannabisefna eftir að hafa reykt tvo vindlinga þá um kvöldið. Hann kvaðst hafa reykt mjög mikið eða um hálft til eitt gramm af kannabis fyrir atburðinn.  Þá hefði hann reykt eitthvað daginn áður og þá eftir 4-5 daga hlé á neyslu.  Hefði hann einnig neytt áfengis og honum liðið illa þá viku.  

Í skýrslu lögreglu kom ennfremur fram að fórnarlambið og stúlka sem var með því hafi vart verið viðræðuhæf vegna fíkniefnaneyslu þegar lögreglumenn bar á vettvang.

Í dómi héraðsdóms kom fram að Baptiste hlyti að hafa verið ljóst að langlíklegast væri að maðurinn dæi af hnífstungu á þessum stað. Því var hann sakfelldur fyrir tilraun til manndráps. Hæstiréttur staðfesti refsingu hans en minnkaði skaðabætur sem hann skal greiða til fórnarlambsins úr 1.500.000 krónum í 1.000.000. Baptiste var einnig dæmdur til að greiða allan sakarkostnað og annan kostnað við málið.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert