„Bara steinhaldið kjafti“

Birgitta Jónsdóttir er þingflokksformaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir er þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forseti Alþingis þurfti alloft að biðja þingmenn að veita ræðumanni hljóð á þingfundi í morgun, en þá var oftar en ekki rætt um tillögu Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um að færa átta virkjanakosti úr biðflokki í nýtingaflokk. Sitt sýnist hverjum um þá tillögu.

Meðal þeirra sem tóku til máls var Píratinn Birgitta Jónsdóttir. Hún sagði að þessir síðustu dagar á Alþingi væru skrítnir og að hún viti ekki hvernig hægt verði að byggja traust á milli stjórnarandstöðu og stjórnar ef haldið verði áfram á þeirri vegferð sem Jón hefur boðað. Á meðan Birgitta hélt ræðu sína var hávaði í hliðarsal slíkur að hún bað forseta um að skerast í leikinn. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók undir með Birgittu og bað þingmenn um hljóð. „Bara steinhaldið kjafti,“ sagði Birgitta í kjölfarið úr ræðustól og fékk hún eftir það að klára ræðu sína.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það ekki til fyrirmyndar hvernig Jón hefði hagað sér og sagðist vona að gerðar verði breytingar á því vinnulagi. Ennfremur sagðist Katrín ekki trúa því að framsóknarmenn ætli að láta Jón Gunnarsson og aðra sjálfstæðismenn keyra yfir það vinnulag sem Framsóknarflokkurinn tók þátt í að leiða í lög og rammaáætlun byggir á.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði að framganga Jóns Gunnarssonar væri orðið sérstakt vandamál á Alþingi en hann gangi þvert gegn lögum sem þingi ákvað sjálft. Vanþekking hans á þeim lögum sem Alþingi setur sé ótrúleg. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði tillögu Jóns virðingaleysi gagnvart lögum í landinu og spurði hvers vegna það liggi svona á að keyra í gegn að bæta við fleiri virkjanakostum í nýtingaflokk.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði átakasækni og skort á heildarsýn einkenna störf ríkisstjórnarinnar og að það væri sérstakt áhyggjuefni. Hann spurði einnig hvaða tilgangi það þjónaði að efna til ófriðar um alla hluti og hvort enginn málaflokkur sé svo mikilvægur að það megi skapa um hann almenna samstöðu.

Ásmundur Friðriksson var eini þingmaður Sjálfstæðisflokks sem tók til máls. Hann sagði að farið væri mörgum og ljótum orðum um störf atvinnuveganefndar. Á síðasta kjörtímabili hafi verið framin þau svik að færa virkjanakosti úr nýtingaflokki í biðflokk og nú sé mikilvægt að stilla klukkuna upp á nýtt. „Við erum að fara vinna með fólkinu og fara að vilja þess í virkjanamálum.“

Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Bjarnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Alþingi
Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Bjarnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Alþingi Skjáskot af Althingi.is
Þingmenn í þungum þönkum fylgjast með umræðunni um fjárlögin.
Þingmenn í þungum þönkum fylgjast með umræðunni um fjárlögin. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert