Lyfjaauglýsingar í sjónvarpi leyfðar

Apótek.
Apótek. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Heimilt verður að auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi verði stjórnarfrumvarp þess efnis samþykkt á Alþingi. Markmið frumvarpsins er að afnema þann greinarmun sem gerður er á fjölmiðlum þegar kemur að auglýsingum lausasölulyfja.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að af hálfu Samkeppniseftirlitsins og Samtaka verslunar og þjónustu hafi verið bent á að ákvæði í 16. gr. lyfjalaga sem bannar að auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi sé ekki til þess fallið að auka samkeppni í lyfsölu. Enn fremur sé bannið ekki í samræmi við það sem almennt gildi í nágrannalöndum.

Með frumvarpinu er fallist á þessi sjónarmið og lagt til að banni við auglýsingum á lausasölulyfjum í sjónvarpi verði aflétt.

Jafnframt er frumvarpinu lögð til sú breyting að ekki verði lengur skylt að birta upplýsingar um pakkningastærðir, verð, stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir í lyfjaauglýsingum. „Þessar upplýsingar geta verið allviðamiklar, sérstaklega þær sem fjalla um aukaverkanir lyfja. Það getur því verið erfiðleikum háð að koma þeim til skila í auglýsingum. Umræddar upplýsingar um lyf eru eigi að síður mikilvægar og nauðsynlegar og er því lagt til að séu þær ekki tilgreindar í lyfjaauglýsingu sé skylt að birta vísun á fylgiseðil með lyfinu en fylgiseðla með lyfjum er að finna á vef Lyfjastofnunar,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert