Meltingarlæknir birtir uppsagnarbréf

Jón Örvar Kristinsson, meltingarlæknir á Landspítalanum, hefur sagt starfi sínu lausu en er ekki viss um að leit spítalans að öðrum lækni beri árangur.

„Ég veit ekki til þessa að íslenskur meltingarlæknir með þessa undirsérgrein  hafi hug á að flytja til Íslands og raunar veit ég ekki um neinn á síðustu árum sem lagt hefur hana fyrir sig eða er í slíku námi nú,“ segir hann í uppsagnarbréfi sem birt er á Facebookhópnum Raddir íslenskra lækna.

Jón Örvar bendir á að eftirmaður sinn þurfi að vera lyf- og meltingarlæknir og sinna 60% starfi. Viðkomandi þarf að hafa lokið 6 ára grunnnámi, kandidatsári og einu deildalæknisári við lyflæknisdeild og síðan 8 ára sérnámi. Kröfu þarf að gera um undirsérhæfingu í speglunaraðgerðum (advanced endoscopy) ásamt að sjálfsögðu breiðri þekkingu á meltingarlækningum.

Eini umsækjandinn hætti við

„Ég er ekki viss um að skynsamlegt væri að láta viðkomandi vita að síðastliðin 5 ár hafa fjórir meltingarlæknar hætt störfum, einn vegna aldurs en hinir þrír vegna kjara sinna og aðstöðu við spítalann. Þeir leituðu í önnur störf erlendis (2) og innanlands (1),“ segir í bréfi Jóns Örvars.

„Þá hafa nær allir starfandi meltingarlæknar við deildina (6/8) minnkað við sig stöðuhlufall en aukið það á öðrum vettvangi. Álagið hefur því aukist mikið á þá sem eftir eru og sífellt verður erfiðara að sinna þeim verkefnum sem berast vegna manneklu.“

„Það myndi líklega einnig fæla frá ef viðkomandi vissi að frá 2008 hefur enginn bæst í hópinn, auglýst var staða síðastliðið vor, ein umsókn barst en sá aðili hætti við þegar honum voru ljós kjör og vinnuaðstæður,“ skrifar Jón Örvar.

Fær 180 þúsund fyrir 60% starf

Þá segir einnig í bréfinu að ekki verði komist hjá því að láta viðkomandi vita að fyrir þetta 60% starf greiðir Landspítalinn kr. 358.083 í mánaðarlaun og útborguð laun verða því um kr. 180.000. „Launin verða þó eitthvað lægri ef reynsla umsækjanda sem sérfræðingur í meltingarlækningum er eitthvað styttri en sú 10 ár reynsla sem fyrirrennarinn hafði.“

„Ég er ekki viss um að leitin beri árangur því ég veit ekki til þessa að íslenskur meltingarlæknir með þessa undirsérgrein hafi hug á að flytja til Íslands og raunar veit ég ekki um neinn á síðustu árum sem lagt hefur hana fyrir sig eða er í slíku námi nú. Það mætti reyna að auglýsa eftir erlendum meltingarlækni en mér er til efs að einhver sæki um þegar erlendis bjóðast margföld laun,“ segir í bréfinu.

Sinnir frekar öðrum áhugamálum en en að vinna á spítalanum

„Ég vil óska Landspítalanum alls hins besta, vonandi finnst lausn. Ég vil líka þakka samstarfsfólki mínu á spítalanum frábært samstarf síðastliðin 8 ár. Skemmtilegra starf hef ég ekki getað hugsað mér. Mér er líka ljóst að ég kem ekki til með að finna mér meira krefjandi starf á Íslandi eða starf þar sem mín sérþekking nýtist betur.“ 

„Vegna stöðu kjaramála lækna á Landspítala en ég hef nú ákveðið að sinna fremur öðrum áhugamálum. Ég er viss um að fleiri sérfræðilæknar á Landspítala hyggjast gera það sama og rétt að stjórnendur íslensks heilbrigðiskerfis átti sig áður en það verður um seinan,“ segir í bréfinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert