Sást með reistan lim á sundstað

Sundlaug.
Sundlaug. mbl.is/ÞÖK

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness sem sakfelldi karlmann fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára dreng. Beraði maðurinn kynfæri sín í Sundmiðstöðinni í Reykjanesbæ og gældi við sig fyrir framan drenginn. Á sama tíma bauðst hann til að veita drengnum munnmök.

Maðurinn var dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir brot sitt en litið var til þess að hann var dæmdur 23. mars 2010 í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir blygðunarsemisbrot. Sá dómur hafði ítrekunaráhrif og sökum hans þótti ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

Ljósmyndir úr eftirlitsmyndavélum Sundmiðstöðvarinnar lágu fyrir í málinu en á þeim mátti sjá manninn koma gangandi að heitum potti  sem sjö unglingar voru í. Var ekki annað að sjá en að hann væri þá með reistan lim. Þá voru sex ljósmyndir af manninum í heitum potti þar sem hann var með hönd á nárasvæðinu á sér eða kynfærum.

Einnig voru í málinu upptökur úr upptökuvélum Sundmiðstöðvarinnar sem staðfestu það sem sást á myndunum.

Það var svo í gufuklefa Sundmiðstöðvarinnar sem hann beraði kynfæri sín drengnum og gældi við lim sinn. Þegar drengurinn ætlaði að ganga út úr gufuklefanum greip maðurinn um axlir hans, káfaði á kynfærum hans utanklæða og bauð honum munnmök. Drengurinn „sjokkeraðist“ við þetta, ýtti við manninum og sagði nei. Hann fór svo út í heitan pott og sagði vinum sínum hvað hafði gerst. Var ákveðið í kjölfarið að greina sundlaugarverði frá þessu. Var þá lögregla kölluð til.

Auk þess að vera dæmdur í fangelsi var manninum gert að greiða drengnum 600 þúsund krónur í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert