Stytti sér leið og urðaði asbestið

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra,
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Starfsmaður Íslenska gámafélagsins urðaði asbestið sem fannst graf­ið und­ir malarplani á iðnaðarsvæði á Ak­ur­eyri í stað þess að flytja það á lögbundinn urðunarstað. Með þessu ætlaði starfsmaðurinn að stytta sér leið í kerfinu.

Í tilkynningu sem forstjóri Íslenska gámafélagsins sendi frá sér í gær kemur fram að asbestúrgangurinn hafi fundist nálægt starfsstöð fyrirtækisins að Réttarhvammi á Akureyri.  Strax hafi verið farið af stað vinna innan fyrirtækisins til að ganga úr skugga um hvort verið gæti að úrgangurinn kæmi frá Íslenska gámafélaginu. Fyrr í vikunni hafi komið í ljós að svo var en starfsmaður Íslenska gámafélagsins hafði í september freistast  til þess að stytta sér leið í ferlakerfi fyrirtækisins sem endaði á þennan skelfilega hátt með urðun úrgangsins, segir í tilkynningu.

Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins segir að því hafi verið um mannleg mistök að ræða hjá starfsmanni sem hafi starfað hjá fyrirtækinu í sjö ár án þess að nokkurn skugga hafi borið þar á.

Vegna þessa er  verið að fara yfir alla vinnuferla  er varða meðhöndlun á hættulegum úrgangi og ítrekað við alla starfsmenn að ávallt skuli fylgt ströngustu reglum við meðferð slíkra efna.

„Fyrir hönd fyrirtækisins biðst ég innilegrar afsökunar á þessum verknaði og lofa því að gera allt sem í  okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að slíkt geti  komið fyrir aftur,“ segir Jón Þórir Frantzson, í tilkynningu.

Sagt upp störfum tímabundið

Hann segir í samtali við mbl.is að starfsmanninum hafi verið vikið frá störfum á mánudagskvöldið þegar í ljós kom hvað hafi gerst. Ekki sé búið að taka ákvörðun um framhaldið.

Að sögn Jóns var mikið álag á starfmanninum á þessum tíma. „Það sköpuðust sérstakar aðstæður á þessum tíma, mikið vinnuálag og veikindi á þessum tíma. Hann var einn að sjá um mjög stórt svæði og það vantaði gám í leigu. Hann tæmdi því þennan gám til þess að geta leigt hann út. Það er skýringin en ákvörðunin er tekin algjörlega á skjön við reglur fyrirtækisins,“ segir Jón. 

Mjög skýrt er kveðið á um það í lögum og reglugerð hvernig standa á að förgun asbest. Jón Þórir segir að ábyrgðin á starfsmanninum og gjörðum hans hvíli á fyrirtækinu og ljóst að þetta mun hafa mjög slæm áhrif á ímynd þess. Hann segir að það sé ljóst að ekkert þessu líkt muni nokkurn tíma koma fyrir aftur hjá neinum starfsmanni Íslenska gámafélagsins.

Gengur vel að fjarlægja asbestið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert