Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll eftir hádegi á morgun (jafnvel yfir 50 m/s þegar verst lætur) og engu ferðaveðri. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands gæti óveðrið skollið á tveimur tímum fyrr á morgun en talið var í gær. Vindstyrkurinn er hins vegar svipaður og áður hafði verið varað við.
Lægðin, sem veldur óveðrinu sem væntanlegt er á morgun, er að taka á sig mynd suðvestur í hafi og er stödd um 700 km austur af Nýfundnalandi. Lægðin er á leið til norðausturs, en á morgun fer hún hratt til norðurs og dýpkar ört.
Á morgun er útlit fyrir vaxandi suðaustanátt, meðalvindhraði víða á bilinu 18-25 m/s eftir hádegið. Vindhviður geta náð yfir 40 m/s vestan og norðan undir fjöllum á Vesturlandi, til dæmis undir Hafnarfjalli. Suðaustanáttinni fylgir rigning og er útlit fyrir talsvert eða mikið úrkomumagn á suðurhelmingi landsins.
Það er von á þíðu á láglendi, en líkur eru á að úrkoman verði á formi slyddu eða snjókomu á heiðum og fjöllum, einkum í fyrstu. Undir kvöld á morgun verður lægðin á norðurleið skammt vestan við land og sunnan við hana er mikill vindstrengur sem mun herja á landið.
Nær hámarki um klukkan 21
Um kl. 21 er útlit fyrir að veðrið nái hámarki suðvestanlands með suðvestan 20-30 m/s. Uppúr miðnætti færir þessi veðurhæð sig yfir á Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra og einnig á Norðurland eystra. Má búast við að vindhviður geti náð yfir 50 m/s á þessum slóðum þar sem vindur stendur af fjöllum. Með suðvestanáttinni kólnar og mun úrkoman á sunnudagskvöldið færa sig yfir í að vera á formi slydduélja og síðar snjóélja.
Á mánudagsmorguninn er gert ráð fyrir suðvestan stormi (18-25 m/s), en allhvass eða hvass vindur síðdegis (13-20 m/s). Útlit er fyrir éljagang, en að létti til norðaustan- og austanlands. Áfram kólnar í veðri og má búast við hita um og undir frostmarki þegar kemur fram á daginn.
„Af ofansögðu er ljóst að spáð er illviðri eftir hádegi á sunnudaginn og fram á mánudag og ekkert ferðaveður. Þessi tilkynning er unnin með aðstoð tölvuspáa með greiningartíma kl. 12 á laugardag,“ segir í tilkynningu frá veðurfræðingum Veðurstofu Íslands.