Óveður á Reykjanesbraut

Það er byrjað að hvessa á suðvesturhorni landsins og komið óveður á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi, á Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. 

Hviður verða 35-45 m/s á utanverðu Kjalarnesi og Hafnarfjalli og eins varhugaverður vindur á Reykjanesbrautinni. Lægir heldur í skamma stund síðdegis áður en skellur á með SV-átt, fyrst á Suðurnesjum. Í kvöld og framan af nóttu verður sums staðar ofsaveður, meðalvindur allt að 25-30 m/s, sérstaklega um landið norðvestanvert og á annesjum norðanlands undir miðnætti.

Það eru hálkublettir og éljagangur á Hellisheiði og Lyngdalsheiði og krapi og él á Mosfellsheiði en annars eru flestir vegir greiðfærir á Suðurlandi.  Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum fjallvegum en að mestu greiðfært á láglendi.

Hálka eða snjóþekja er víða á vegum á Vestfjörðum en þæfingsfærð á Hrafnseyrarheiði.  

Á Norðurlandi vestra er að mestu greiðfært en hálka eða hálkublettir nokkuð víða á Norðausturlandi. Greiðfært er á láglendi á Austfjörðum en hálkublettir á flestum fjallvegum en þó er hálka á Oddsskarði. Suðausturströndin er greiðfær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert