Myndskeið RÚV af Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í hláturskasti hefur vakið mikla athygli í dag. Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður RÚV, flissaði í miðju viðtali við Brynjar eftir að Brynjar sagðist ekki vera eins fýlugjarn og útlitið benti til. Það kom af stað þvílíkri hláturhrinu hjá Brynjari að annað eins hefur varla sést.
Brynjar segist hafa fengið hlýleg viðbrögð við myndskeiðinu í dag og að fólk virðist hafa gaman af.
„Því asnalegri sem maður er því meira er fólki skemmt,“ segir Brynjar glaðlega.
Hann segir ekki algengt að hann fái viðlíka hlátursköst en að hann sé þó ekki alveg laus við þau. „Þetta var náttúrulega alfarið fréttamanninum að kenna. Ég segi eins og börnin, hann byrjaði.“
Brynjar fékk símtal frá RÚV í dag þar sem hann var inntur eftir leyfi til að sýna myndskeiðið. Brynjar gaf leyfið og aðspurður segir hann sér það ekki mikilvægt að halda uppi alvarlegri ímynd. „Nei nei, það lenda nú allir í því að hlæja.“
Brynjar Níelsson fær hláturskast í viðtali.