Ófeigur hlaut verðlaun bóksala

Ófeigur Sigurðsson rithöfundur.
Ófeigur Sigurðsson rithöfundur. mbl.is/Einar Falur

Tilkynnt hefur verið um bóksalaverðlaunin 2014 en 55 bóksalar tóku þátt í valinu. Verðlaunin skiptast nokkuð jafnt á milli kynja. Ekki er um nein efnisleg verðlaun að ræða en bóksalar munu hins vegar gera vel við verðlaunabækurnar fram að jólum.  Einnig fær bókin í fyrsta sæti að bera ákveðinn verðlaunamiða.

Ófeigur Sigurðsson fékk verðlaun fyrir bestu íslensku skáldsöguna fyrir bók sína Öræfi. Í öðru sæti var verk Steinars Braga, Kata og í 3. til 4. sæti voru bækurnar Koparakur eftir Gyrði Elíasson og Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur.

Besta þýdda skáldsagan var Náðarstund eftir Hannah Kent og besta ljóðabókin var Kok eftir Kristínu Eiríksdóttur. Saga þeirra, sagan mín eftir Helgu Guðrúnu Jóhnsson og Svarthvítir dagar eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur voru jafnar í valinu sem besta ævisagan og var Lífríki Íslands eftir Snorra Baldursson verðlaunuð í flokki fræðibóka.

Besta íslenska barnabókin var Þín eigin þjóðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson og besta íslenska ungmennabókin Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur.

Rottuborgari eftir David Walliams var best þýdda barnabókin og Eleanor og Park eftir Rainbow Rowell best þýdda ungmennabókin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert