Gistinóttum fjölgaði um 81,4%

Erlendum ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár.
Erlendum ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár. mbl.is/Ómar Óskarsson

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, skrifaði í dag undir samning um áframhaldandi samstarf út árið 2016 vegna markaðsverkefnisins Ísland – allt árið ásamt öðrum aðstandendum verkefnisins. Samkvæmt tilkynningu mun ríkið leggja til allt að 200 milljónir á ári gegn jafn háu mótframlagi frá samstarfsaðilunum; Reykjavíkurborg, Icelandair, Landsbankanum og Samtökum ferðaþjónustunnar.

„Mikil verðmæti eru fólgin í því samstarfi sem verkefnið byggir á og mikilvægt að halda áfram á sömu braut til að efla ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild. Ein af meginstoðum ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar er að kynna Reykjavík sem vetraráfangastað sem er í algjörum samhljómi með áherslum Íslands – allt árið,“ segir í tilkynningu.

Farið var af stað með markaðsverkefnið Ísland - allt árið árið 2011 í kjölfar verkefnisins Inspired by Iceland sem hófst árið 2010. Hefur gistinóttum utan háannar fjölgað mikið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár og má rekja það að hluta til þessara verkefna. 

Í tilkynningu kemur fram að á þremur árum, frá 2010 til 2013, fjölgaði gistinóttum utan háannar á höfuðborgarsvæðinu um 81,4%.

„Ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar og vöxtur hennar undanfarin ár hefur haft mikið að segja fyrir atvinnuþróun í borginni á þessum tíma. Íslendingar hafa almennt jákvætt viðhorf til ferðaþjónustunnar samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Ferðamálastofu. 98% svarenda á höfuðborgarsvæðinu sögðust telja að fjöldi ferðamanna yfir vetrartímann væri hæfilegur eða of lítill. Þar af sögðu 42% að fjöldinn væri heldur of lítill eða alltof lítill. Yfir 90% telja að ferðamenn efli hagkerfið og verslun í landinu,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert