Hvaða gjafir færðu á bland.is?

Kemur jólapakkinn þinn af bland.is
Kemur jólapakkinn þinn af bland.is mbl.is/Ómar Óskarsson

Þegar líða fer að jólum stútfyllast verslanir landsins af örvæntingarfullu fólki í leit að hinni fullkomnu jólagjöf. Það getur reynst þrautin þyngri enda krefjast slíkar búðarferðir bæði tíma og orku og skila sjaldan frumlegum niðurstöðum.

Á bland.is, sem líklega er stærsti söluvefur landsins, eru hinsvegar engar raðir og oftar en ekki boðið upp á heimsendingu. Þá er vefurinn einnig sérlega hentugur fyrir þá sem vilja hugsa út fyrir kassann en þar selur ótrúlegasta fólk ótrúlega hluti. Á vefsíðunni má oft gera kostakaup og einnig sérlega ópraktísk en afar fyndin kaup. Mbl.is fór í búðarferð á Bland og kannaði úrvalið en hægt er að smella á tenglana í fréttinni til að sjá hlutina sem um ræðir.

Frozen og furðudýr

Þegar kemur að gjafakaupum er best að hugsa fyrst um blessuð börnin. Þetta árið elska öll börn teiknimyndina Frozen og það vill svo vel til að bland.is gerir það líka. Á síðunni er hægt að kaupa Frozen töskur og pennaveski, dúkkur og fígúrur sem hannaðar eru eftir aðalpersónunum og jafnvel Frozen úr.

Eigi Disney merkjavörur ekki upp á pallborðið hjá litlum hipsterum má fjárfesta í sérsmíðuðu dúkkuhúsi frá notandanum My little sleepy. Húsin, sem eru í réttri stærð fyrir Barbie dúkkur, eru á þremur hæðum og er hægt að velja bæði liti og gólfefni á húsið.

Milliveginum má síðan ná með því að gefa bangsann Sugar. Sugar er selur og með honum fylgir fiskur til að halda honum söddum og sáttum. Sugar bæði hreyfist og gefur frá sér hljóð ef hann er svangur, þreyttur eða hræddur og hreyfir sig jafnvel í átt að eigandanum ef hann er látinn í friði samkvæmt síðu notandans Smile2me. Hann er því sérlega tilvalin gjöf ef þér líkar illa við foreldra barnsins.

Allt fyrir ástarlífið

Sé sá sem þiggur gjöfina glysgjarn einstaklingur er af nógu að taka þegar kemur að skartgripum og skrautlegum klæðnaði á Bland. Í þeirri deild má einnig finna ýmislegt sem nota má til að kynda undir ástarlífið ef hugmyndaflug er fyrir hendi. T.a.m. mætti gefa ástinni í lífi sínu þessa eftirlíkingu af Titanic hálsmeninu ásamt loforði um að teikna hana „eins og eina af frönsku stúlkunum þínum“. Þessi forláta flugmannsskyrta gæti síðan komið sterk inn í hefðbundnar einkennisbúninga fantasíur og gert jólanæturnar sérlega gleðilegar.

Þá er einnig hægt að finna leðurfrakka, leðurskyrtu og leðurbuxur, allt í einum pakka, og myndu þær eflaust sóma sér vel undir tré hjá meðlimi BDSM-félagsins eða hugsanlega einhverjum mótorhjólaunnandanum.

Þessar stóru og munúðarfullu styttur sem sagðar eru af Adam og Evu myndu síðan sóma sér vel í hvaða hjónaherbergi sem er, nú eða við heita pottinn líkt og á meðfylgjandi myndum ef þannig stendur til. Hvort þær kveiki í fólki er líklega persónubundið en glæsilegar eru þær.

Raftæki fyrir unga sem hrukkótta

Mikið úrval raftækja má finna á síðunni. Fyrir þá sem vilja taka löglegar „selfies“ undir stýri, má t.d. finna bílamyndavél sem getur bæði tekið upp það sem fram fer innan bílsins sem utan. Jólagjöf lestrarhestsins er einnig að finna á Bland en það er að sjálfsögðu lesbrettið Kindle frá Amazon sem gerir eigandanum kleift að ferðast með heilu bókahillurnar í vasanum. Til að rækta barnið hið innra mætti síðan gefa þessa fjarstýrðu þyrlu en einnig býður bland upp á aðrar leiðir til að berjast gegn aldrinum.

Yngingarvélin er t.a.m. ætluð fólki yfir 35 ára aldri enda er aldurinn þá yfirleitt farinn að síga all heiftarlega á fólk. Samkvæmt lýsingu seljanda gefur tækið frá sér hljóðbylgjur sem lemjast inn í húðina og þykkja hana. Við seljum það ekki dýrara en við keyptum það, en aftur á móti þá keyptum við það bara ekki neitt.

500 þúsund króna tíkall

Inn á heimilið mætti síðan kaupa glæsilega rakarastóla, gæruskinn eða kertaarinn. Handa þeim sem vilja frumlegri innréttingar mætti einnig kaupa þessa þrjá mátunarklefa sem seldir eru í einu lagi og má eflaust finna ýmis not fyrir.

Tónelskir einstaklingar yrðu eflaust sérlega lukkulegir með þessa harmonikku, eða byrjenda þverflautu en einnig væri ekki úr lagi að splæsa í píanótíma.

Þeir sem vilja kerti og spil gætu gefið stokk af Cards Against Humanity sem ætti þó líklega að halda frá fjölskylduboðunum enda hentar það einna best fólki með húmor í svartari kantinum. Hænsnakofi væri hinsvegar eitthvað sem ungir sem aldnir gætu dundað sér við að sinna, svo lengi sem þú reddir þér hænum líka.

Að lokum má benda á að viljir þú gefa gjöf sem kostar mikið en lætur lítið yfir sér gætir þú splæst í þennan 10 krónu seðil frá árinu 1885. Hann kostar litlar 500 þúsund krónur í dag og miðað við það verðlag er eflaust ágætis hugmynd að stinga nokkrum 500 köllum í albúm fyrir barnabarnabörnin.

Ekki er þverfótað fyrir Frozen vörum á bland.is
Ekki er þverfótað fyrir Frozen vörum á bland.is Skjáskot af bland.is
Hver vill ekki þessa dýrð í líf sitt?
Hver vill ekki þessa dýrð í líf sitt? Skjáskot af bland.is
Þessi getur hresst upp á ástarlífið eða hugsanlega komið þér …
Þessi getur hresst upp á ástarlífið eða hugsanlega komið þér fram fyrir á flugvöllum.
Tíu krónurnar eru dýrari en þú heldur.
Tíu krónurnar eru dýrari en þú heldur. Skjáskot af bland.is
Hænsnakofinn kemst ekki undir tréð en myndi gleðja engu að …
Hænsnakofinn kemst ekki undir tréð en myndi gleðja engu að síður. Skjáskot af bland.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert