Strawberries dæmt til að greiða vangreidd laun

Strawberries var til húsa í Lækjargötu í Reykjavík.
Strawberries var til húsa í Lækjargötu í Reykjavík. mbl.is/Golli

Veitingahúsið Lækur, sem átti og rak skemmtistaðinn Strawberries í Lækjargötu, hefur verið dæmt til að greiða fyrrverandi starfsmanni skemmtistaðarins 1,3 milljónir króna í vangreidd laun, en honum var sagt upp fyrirvaralaust.

Starfsmaðurinn krafðist þess að fyrirtækið yrði dæmt til að greiða honum skuld upp á 1,6 milljónir króna. Einnig krafði hann miskabóta þar sem fyrirtækið þjófkenndi hann.

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðun að fyrirtækið hafi ekki sýnt fram á að starfsmaðurinn hafi, áður en honum var sagt upp störfum hjá stefnda, brotið verulega gegn starfsskyldum sínum. Því hafi fyrirvaralaus uppsögn starfsmannsins ekki verið reist á nægilegum efnislegum forsendum.

„Selskapsdömustaður“

Í málinu greindi mönnum m.a. á um hvort starfsmanninum hefði verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu á vormánuðum 2011, eða hann gengið heimildarlaust úr starfi, án uppsagnar.

Ekki var ágreiningur um að starfsmaðurinn hafi verið ráðinn til starfa hjá staðnum um mitt ár 2010 og hafi starf hans verið fólgið í rekstri bars á selskapsdömustaðnum Strawberries, eins og það er orðað í dómnum, við Lækjargötu í Reykjavík.

Nánar tiltekið mun maðurinn hafa afgreitt á barnum og annast innkaup vegna reksturs hans. Til að annast innkaupin fékk starfsmaðurinn til afnota debetkort útgefið á fyrirtækið. Þá fékk hann lykla að staðnum og farsíma.

Dæmdar miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar

Forsvarsmaður Veitingahússins Læks sagði við aðalmeðferðina, að grunsemdir höfðu vaknað á vormánuðum 2011 um að starfsmaðurinn hefði misnotað debetkortið með því að nota það ekki eingöngu til innkaupa vegna rekstursins heldur einnig til greiðslu á einkaútgjöldum sínum auk þess sem hann hefði heimildarlaust tekið peninga úr sjóðsvél á barnum. 

Málið var kært til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en lögreglan tilkynnti í nóvember 2012 að rannsókn málsins hefði verið hætt þar sem heimild starfsmannsins til meðferðar á fjármunum staðarins hefði verið óljós enda um óhefðbundnar fjárvörslur að ræða af hálfu forsvarsmanna staðarins. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Veitingahúsið Lækur hafi fyrirvarlaust og án nægra ástæðna sagt starfsmanninum upp störfum, 4. maí 2011. Lögreglukæran hafi verið illa grunduð og var fallist á það með starfsmanninum að þær sakir sem fyrirtækið hafi borið á hann hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru samkvæmt skaðabótalögum. Því var veitingahúsið einnig dæmt til að greiða manninum 200.000 kr. í miskabætur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert