Svikalogn í miðri lægð

Ekki er tímabært fyrir Akureyringa að setja skóflurnar inn í …
Ekki er tímabært fyrir Akureyringa að setja skóflurnar inn í geymslu því það mun snjóa talsvert á Norðurlandi á morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Norðlendingar ættu að búa sig undir meiri snjó því á morgun er von norðaustan hvassviðri og snjókomu. Búast má við því að færð spillist fljótt á þessum slóðum. Lægðin sem olli óveðrinu á þriðjudag hefur hreinlega sest ofan á landið og í dag er landið meira og minna í svikalogni inni í lægðinni, segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Nú á áttunda tímanum var sett inn athugasemd á vef Veðurstofunnar þar sem athygli er vakin á versnandi veðri norðvestantil á landinu í nótt með ofankomu og slæmu ferðaveðri. Búast má við að færð spillist hratt á þeim slóðum.

Spáin næsta sólarhring:

Breytileg eða norðvestlæg átt, 3-10. Él, en yfirleitt þurrt A-lands. Hvessir á Vestfjörðum seint í kvöld. Bætir í ofankomu um landið N-vert undir miðnætti. Gengur í norðaustan hvassviðri eða storm með snjókomu á Vestfjörðum í nótt og einnig NV-lands á morgun, en annars hægari. Frost víða 1 til 9 stig, kaldast í innsveitum NA-til.

Að sögn Teits geta landsmenn búist við snjókomu í dag en inni í lægðum, líkt og þeirri sem situr yfir landinu,  er oft einhver úrkoma og það séu éljabakkar á víð og dreif um mest allt land. Éljabakkarnir eru á sveimi víða og stinga sér niður hér og þar, segir Teitur.

Það sem gerist í nótt (aðfararnótt föstudags) er að lægðin sem er yfir landinu í dag, fer austur fyrir land og dregur smám saman norðanátt yfir landið, fyrst á Vestfirði, segir Teitur. Hann segir að það sé lítill vindur inni í þessari gömlu flatbotna lægð en svolítill vindur í kringum hana og það er sá vindur sem fer yfir Vestfirðina í nótt. 

Á morgun er spáð norðan og norðaustan 13-20 m/s, hvassast NV-til fyrir hádegi, en um landið N- og A-vert um kvöldið. Snjókoma eða él, en bjart með köflum syðra. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins S-til.

Á laugardag:
Gengur í suðaustan 15-23 m/s síðdegis með snjókomu eða slyddu og rigning um kvöldið, fyrst SV-lands. Hægari og úrkomulítið NA-lands fram á kvöld. Hlýnandi veður í bili. 

Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt og él í flestum landshlutum. Hiti um og undir frostmarki.

Á mánudag, þriðjudag (Þorláksmessa) og miðvikudag (aðfangadagur jóla):
Útlit fyrir norðaustlæga átt með snjókomu eða éljum, en úrkomulítið SV-til. Fremur svalt í veðri.

Það er vetrarlegt um að litast á Akureyri
Það er vetrarlegt um að litast á Akureyri mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Af vef Veðurstofu Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert