Bifreið hafnaði ofan í á

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Tvö umferðarslys urðu í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í dag. Rétt fyrir klukkan þrjú valt bifreið á Laugarvatnsvegi með þeim afleiðingum að hann hafnaði ofan í Hjálmsstaðaá. Þá varð þriggja bílaárekstur á Biskupsstungnabraut um kl. 14 í dag.

Lögreglan á Selfossi segir að tveir erlendir ferðamenn hafi verið í bifreiðinni sem valt. Tildrög slyssins eru óljós en ferðamennirnir slösuðust ekki alvarlega. Þeir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til skoðunar. 

Lögreglan segir ennfremur, að það hafi ekki verið einfalt verk að ná bifreiðinni upp úr ánni en það hafi þó tekist að lokum. 

Þá varð mikið eignatjón þegar þrír bílar skullu saman í dag. Tveir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til skoðunar. Enginn hlaut alvarleg meiðsl. Tveir bílar voru fluttir á brott með dráttarbifreið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert