Dróst inn í fiskvinnsluvél

mbl.is/Hjörtur

Lögregla og sjúkralið voru kölluð út vegna vinnuslyss sem varð í Þorlákshöfn á sjötta tímanum í dag. Þar festist maður í fiskvinnsluvél og urðu slökkviðsmenn að beita klippum til að losa hann úr vélinni. Maðurinn var fluttur í sjúkrabíl til Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar um líðan mannsins liggja ekki fyrir að svo stöddu, en hann var með meðvitund þegar hann var fluttur á brott. 

Atvikið átti sér stað um kl. 17:30 í dag. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var maðurinn að þrífa fiskvinnsluvél þegar drifhjól vélarinnar krækti í vinnugalla mannsins með þeim afleiðingum að hann dróst inn í vélina. Lögreglan segir að búið hafi verið að taka færibandið sjálft af vélinni sem var í gangi. 

Lögreglan segir að það hafi verið starfsmanninum til happs að vinnufélagar hans heyrðu neyðaróp hans og náðu að slökkva á vélinni. Maðurinn var hins vegar svo illa fastur í henni að beita þurfti klippum til að losa hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert