„Eir er búin að leysa málið“

Starfsfólk mun útbúa matsal þar sem íbúar geta borðað saman …
Starfsfólk mun útbúa matsal þar sem íbúar geta borðað saman yfir hátíðarnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íbúar á Eir munu ekki þurfa að borða einir yfir hátíðarnar vegna aðstöðuleysis eins og útlit var fyrir, en starfsfólk hefur nú leyst málið að sögn forstjóra félagsins.

„Við stóðum í þeirri trú að haft yrði opið yfir hátíðarnar, enda eru auðvitað alltaf einstaklingar sem verða þarna eftir,“ segir Sigurður Rúnar Sigurjónsson forstjóri Eirar, en eins og fram kom í frétt mbl.is í gær verður félagsmiðstöðin sem íbúar borða hádegismat saman á lokuð á hátíðisdögum yfir jólin.

Ekki stóð þó til að íbúar yrðu matarlausir, en matur verður eldaður í eldhúsi borgarinnar við Vitatorg og honum ekið til íbúa. Ákvörðun um málið er ekki tekin innan Eirar, heldur er það í höndum Reykjavíkurborgar.

„Við sáum um mötuneytismálin áður, en þessu var úthýst til borgarinnar þegar þjónustumiðstöðin Borgir í Spönginni opnaði,“ segir Sigurður.

Í gær var útlit fyrir að engin aðstaða yrði í boði fyrir íbúa Eirar til að borða saman hádegismat vegna lokunarinnar, en málið hefur nú verið leyst að sögn Sigurðar. Starfsfólk Eirar mun koma upp aðstöðu á staðnum þar sem íbúar geta hist og borðað saman matinn sem sendur er frá Vitatorgi.

„Þessi ákvörðun var tekin í morgun. Maturinn verður sendur til okkar og fólk getur síðan valið hvort það fær hann upp í íbúð eða borðar saman í matsal sem við útbúum. Þannig að Eir er búin að leysa málið,” segir Sigurður.

Frétt mbl.is: Matsalurinn ekki opinn á jólunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert