Sjö hundruð símtöl um snjóhreinsun

Snjóhreinsun.
Snjóhreinsun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Símaver Reykjavíkurborgar hefur tekið við um sjö hundruð símtölum á dag tengdum snjóhreinsun frá því byrjaði að snjóa 9. desember síðastliðinn. Í dag verða í heildina um 55 bílar og tæki nýtt til snjóhreinsunar og að auki er 25 manna flokkur fá hverfastöðvunum við störf á flokkabílum með ýmsan búnað.

Mannskapurinn var ræstur út klukkan 4 í nótt til starfa við snjóhreinsun og hálkueyðingu í Reykjavík. Í gærkvöldi var í unnið vel fram á kvöld, flestir til kl. 21 og einhverjir voru að nokkuð lengur.

Á vefsvæði borgarinnar segir að skipta megi verkefnum Reykjavíkurborgar við snjóhreinsun og hálkueyðingu í þrennt eftir hvort um er að ræða umferðargötur, stíga og gangstéttar eða stofnanalóðir og strætóskýli. Aðstæður kalli á mismunandi tækjakost og aðferðir, en markmiðið sé það sama: að tryggja greiðar leiðir.

„Í dag verða 35 bílar og vinnuvélar notaðar við snjóhreinsun og hálkueyðingu á umferðargötum og eru þá ótaldar vélar Vegagerðarinnar sem sinnir snjóhreinsunar á stofnbrautum að miklu leyti. Götum er skipt í þjónustuflokka eftir forgangi og var unnið í öllum flokkum gatna í gær og verður áfram í dag og næstu daga.  Heildarlengd gatna sem þarf að hreinsa er 445 km. og þær þarf að fara oft til að ryðja öllum snjó.

Á stígum og gangstéttum eru 13 sérútbúnar dráttarvélar með plóga og sanddreifingarbúnað á ferðinni  og hafa verið frá því klukkan 4 í nótt og verða fram á kvöld. Heildarlengd stíga og gangstétta sem falla undir vetrarþjónustu eru 687 km.

Sérstakur hópur með 6 traktorsgröfur var einnig ræstur út í nótt en hann sér um hreinsun á strætóbiðstöðvum, sem og við leikskóla, grunnskóla, sundlaugar og nokkrar stofnanir Reykjavíkurborgar. Þá er um 25 manna hópur frá hverfastöðvunum sem sér um mokstur á stöðum sem tæki komast ekki að og einnig sér hópurinn um að sanda og salta við stofnanalóðir og á strætóbiðstöðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert