Veðrið tefur flutninga á Norðurlandi

Talsverð töf varð á flugi í dag vegna veðurs. Þá …
Talsverð töf varð á flugi í dag vegna veðurs. Þá seinkaði flutningi á landi líka vegna hálku. Einar Eyland, svæðisstjóri Flytjanda á norðurlandi, segist þó gera ráð fyrir að allir pakkar komist til skila á réttum tíma. Kristinn Ingvarsson

Tafir urðu í dag á flutningum bæði á landi og í lofti á Norðurlandi eystra. Flug Norlandair milli Þórshafnar og Akureyrar tafðist um tæplega fimm klukkustundir og ófært var til Grímseyjar og Constable point á Grænlandi. Þá gekk flutningur á landi nokkuð hægt fyrir sig vegna hálku.

Mörg flug felld niður í desember

Steindór Kristinn Jónsson, rekstrarstjóri hjá Norlandair, segir í samtali við mbl.is að ákveðið hafi verið að fljúga rétt fyrir fjögur frá Þórshöfn, en áætlað var að fara klukkan ellefu í morgun. Steindór segir þetta ekki einsdæmi núna í desember og að tíðin hafi verið nokkuð slæm það sem af er mánuði. Talsvert hafi þurft að fella niður af flugum vegna veðurs og þá séu flugvellirnir sem Norlandair fljúgi á oft ekki tækjum búnir til að halda flugbrautunum opnum.

Hann segist bjartsýnn með flug um helgina, en að mögulega gætu þó orðið einhverjar seinkanir á sunnudaginn. „Þetta klárast fyrir jól, en það er mögulega von á einhverjum seinkunum,“ segir Steindór.

Einar Eyland, svæðisstjóri norðurlands hjá Flytjanda, segir að dagurinn hafi gengið vel miðað við aðstæður. Fljúgandi hálka hafi verið meðfram ströndinni á leiðinni frá Húsavík til Vopnafjarðar og þá hafi þæfingur gert flutning erfiðari en ella.

Taugastríðið í algleymingi

Jólavertíðin er annamesti tími ársins í flutningum og segir Einar að tíu bílar séu að fara á þriggja klukkustunda tímabili í kvöld áleiðis til Reykjavíkur og sami fjöldi á leið norður. „Það er mikið í gangi og taugastríðið í algleymingi,“ segir hann.

Hann segir helgina líta vel út og að það sé heldur að rætast úr spánni frekar en hitt. Aðspurður hvort að hann geri ráð fyrir að allir jólapakkar komist til skila á réttum tíma segist hann gera ráð fyrir því. „Útlitið í kortunum er þannig að allt ætti að geta gegnið upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert