Vonlaust að fá dýralækna til starfa

Dýralæknir að störfum en myndin er úr safni.
Dýralæknir að störfum en myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Matvælastofnun hefur á undanförnum mánuðum auglýst í þrígang eftir dýralæknum til að þjónusta Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp, Borgarfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað og Fjarðabyggð (að undanskildum Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði), en án árangurs.

Þjónustusamningurinn verður áfram laus til umsóknar, en stofnunin telur að breyta þurfi reglum til að finna lausn sem stuðlar að því að tryggja dýralæknaþjónustu á svæðinu til lengri tíma. Tveir dýralæknar á svæðinu eru sjálfstætt starfandi, en hafa nú tilkynnt um fjarveru til 4. janúar n.k, að því er fram kemur á vef Matvælastofnunar.

Yfirdýralæknir og aðrir fulltrúar stofnunarinnar hafa fundað með landbúnaðarráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins og gert grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem fyrirsjáanleg var og er nú komin upp eftir að starfandi dýralæknar á þessu svæði fóru í tímabundið leyfi. Þá hefur verið óskað eftir breytingu á reglugerð um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum, nr. 846/2011, á þann veg að Matvælastofnun verði heimilt og fái fjármagn til að gera samning um dýralæknaþjónustu fyrir ofangreint svæði gegn 100% þóknun í stað 50%, í þeirri von að það yrði til þess að einhver dýralæknir sækti um. Telur stofnunin nauðsynlegt að slík breyting á reglum taki þegar gildi þannig að unnt verði að semja við dýralækni sem tæki að sér að þjónusta svæðið.

Matvælastofnun harmar þá stöðu sem dýraeigendur á Austurlandi standa frammi fyrir meðan enginn dýralæknir er starfandi á svæðinu eða sækir um þann samning sem í boði er og á meðan stjórnvöld hafa ekki gefið svar um þá framtíðarlausn sem stofnunin hefur lagt til. 

Héraðsdýralæknir Austurumdæmis, Eyrún Arnardóttir, er nú í fæðingarorlofi en samið hefur verið við Hákon Hansson á Breiðdalsvík og jafnframt héraðsdýralæknana Ólaf Jónsson í Norðausturumdæmi og Gunnar Þorkelsson í Suðurumdæmi um að sinna störfum héraðsdýralæknis. Ásdís Helga Bjarnadóttir dýraeftirlitsmaður í Austurumdæmi tekur við öllum erindum sem berast til umdæmisskrifstofunnar og deilir þeim út til réttra aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert