Aðstoða ökumenn á Hellisheiði

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Björgunarsveitir frá Hveragerði og Þorlákshöfn hafa verið kallaðar út vegna ófærðar á Hellisheiði. Þar er nú slæmt skyggni og nokkrir ökumenn hafa fest bíla sína sem hamla því að hægt sé að ryðja. Heiðin hefur verið lokað en Þrengslin eru opin.

Einnig eru sveitir frá Akranesi og Kjalarnesi á leið í Hvalfjörðinn en búið er að loka veginum um hann. Fljúgandi hálka er í firðinum og hafa bílar lent utan vegar af þeim sökum. Sveitirnar munu manna lokunarpósta auk þess að aðstoða vegfarendur sem eru í vanda.

Fyrr í dag voru björgunarsveitir kallaðar út vegna bíla sem ekið var út af, einn rétt sunnan Hólmavíkur, einn á Raknadalshlíð við Patreksfjörð og tveir á Holtavörðuheiði.

Færð er víða slæm og beinir Slysavarnafélagið Landsbjörg því til fólks að vera ekki á ferðinni nema á bifreiðum sem vel eru búnar til vetraraksturs. Einnig að virða lokanir lögreglu og Vegagerðar. Upplýsingar um færð á vegum má finna á vegagerd.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert