Klakastífla ógnar húsum í Aðaldal

Klakastíflur geta valdið miklum vandræðum eins og sjá má á …
Klakastíflur geta valdið miklum vandræðum eins og sjá má á þessari mynd af klakastíflu í Hvítá. mbl.is/RAX

Klakastífla hefur myndast í Laxá í Aðaldal og veldur nú áhyggjum bænda á Knútsstöðum en bærinn stendur á bakka árinnar. „Það hækkar í ánni og hún er bara að flæða hérna í kringum mig,“ segir Jónas Jónsson, bóndi á Knútsstöðum. 

„Í stórhríðinni síðustu helgi þá rak í ánna og hún byrjaði að stíflast, síðan þá hefur stíflan bara hækkað og áin sömuleiðis,“ segir Jónas en bætir við að engin verðmæti séu í bráðri hættu. „Það gerir ekkert til þó áin hlaupi hér upp á tún og í raun er ekkert í hættu nema áin hækki mikið meira, þá fer hún að flæða upp að húsinu mínu. Ef stíflan brestur þá gæti það einnig valdið skemmdum á þjóðveginum.“

Þurfa líklega að sprengja stíflurnar í burtu

„Áin hættir ekkert að renna þannig hún breiðir bara úr sér hérna yfir túnin. Ef þetta heldur áfram sem horfir þá mun áin valda vandræðum niður við þjóðveginn. Þetta eru í raun tvær stíflur hérna rétt neðan við bæinn,“ segir Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri lögreglunnar á Húsavík.

„Nú þurfum við helst að finna út úr því hvar við getum fundið sprengiefni svona stuttu fyrir jól. Það er spurning hvort hægt sé að sprengja þetta með tívolíbombu,“ segir Aðalsteinn kíminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert