Meta fyrirvara hverju sinni

Zappkit samanstendur af snjallsímaforriti, magnara og rafskautum. Það er sagt …
Zappkit samanstendur af snjallsímaforriti, magnara og rafskautum. Það er sagt geta haft áhrif á allt frá andremmu, til alnæmis, ebólu og krabbameins. Af vefsíðunni Zappkit.com

Það fer eftir því hvernig fullyrðingar og fyrirvarar um virkni vöru eru settar fram hvort auglýsingar teljist misvísandi eða villandi fyrir neytendur. Fyrirtækið Allt hitt heldur úti vefsíðu um tækið Zappkit sem á að virka á fjölda kvilla en fyrirvari er á síðunni um að engum lækningum sé lofað. 

Eins og sagt var frá á mbl.is í dag má finna á vefsíðunni reynslusögur fólks sem er sagt hafa notað Zappkit en tækið samanstendur af snjallsímaforriti, magnara og rafskautum. Það á að nota eigintíðni veira, sýkla og annarra kvilla til þess að hafa áhrif á þá. Fyrir neðan þær reynslusögur má þó finna fyrirvara þar sem kemur fram að fyrirtækið lofi ekki lækningu eða áhrifum á einkenni. Á meðal þeirra sjúkdóma sem tækið er sagt geta haft áhrif á eru krabbamein, ebóla og alnæmi.

Samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þurfa fyrirtæki að geta sannað allar fullyrðingar sem koma fram í auglýsingum. Ekki má veita villandi eða rangar upplýsingar. Ef einhverjar staðhæfingar koma fram í auglýsingunum þurfa fyrirtækin að geta lagt fram einhverjar rannsóknir eða sannanir fyrir þeim

Að sögn Matthildar Sveinsdóttur, lögfræðings á neytendaréttarsviði Neytendastofu, þarf að meta hverju sinni hvernig fullyrðingar eru settar í auglýsingum fyrir vöru og hvernig fyrirvarar eru gerðir. Þegar um vefsíður sé að ræða geti jafnvel þurft að líta til þess hvernig annað efni er sett fram á henni.

Neytendastofa getur sjálft tekið upp mál ef hún telur auglýsingar villandi eða misvísandi. Matthildur segir að fjöldi ábendinga hafi borist um fullyrðingar sem settar hafa verið fram um fæðubótarefni sem stefnan sé að skoða eftir áramótin. Samhliða verði vefsíða Zappkit skoðuð með tilliti til þess hvort tilefni sé til að kanna nánar fullyrðingar á henni. 

Bjóða app gegn ebólu

Zappkit „ævintýralega vitleysa“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert