Ógnaði siðum og venjum með fótbolta

„Við skipulögðum mótið í anda mannréttinda og þróunar til þess að stuðla að aukinni vitund barnanna um réttindi sín. Þau fengu merkta búninga með táknum fyrir ýmist frið, jafnrétti eða samstöðu. Þrjú lið báru hvert tákn sem voru jafnframt slagorð mótsins. Þeim var gert grein fyrir því að þau væru að spila til þess að vekja athygli á réttindum barna í heiminum og í nafni friðar, jafnréttis og samstöðu.“

Þetta segir Tinna Isebarn en hún er verkefnastjóri hjá alþjóðlegu frjálsu félagasamtökunum „Global Network for Rights and Development“, eða GNRD. Samtökin komu af stað þróunar- og mannréttindaverkefninu „I Have a Right to Play“ (RTP) í Khartoum, höfuðborg Súdans árið 2013. Verkefnið er með það markmið að gefa börnum og unglingum sem lifa á götunni tækifæri til þess að njóta réttinda þeirra til þess að leika sér.

„Við gáfum þeim tækifæri til þess að keppa í fótbolta og blaki í öruggu og mannsæmandi umhverfi. Þessi börn lifa við mjög bágar aðstæður og mörg af þeim fengu þarna t.d. sínu fyrstu skó, búninga og bolta,“ segir Tinna.

Verkefnið var hannað með það að markmiði að vernda og efla 31. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um réttindi barna til tómstunda og hvíldar, til að stunda leiki og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

„Við viljum vekja alþjóðlega athygli á því að þátttaka í íþróttum og líkamleg menntun hefur verið viðurkennd sem grundvallarréttindi allra frá árinu 1978 af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Með það í huga viljum við varpa ljósi á raunveruleikann og misskiptingu heimsins. Oftast vegna fátæktar eru börn svipt réttindum sínum; eru þvinguð til vinnu ung að aldri, misþyrmt, þurfa að þola stríðsátök og eru jafnvel seld til kynlífsþrælkunnar, svo að dæmi séu tekin. Milljónir barna í heiminum í dag eru munaðarlaus, eru rænd barnæskunni, hafa ekki aðgang að menntun og fá ekki tækifæri á mannsæmandi lífi. Þessi börn eru berskjölduð og það er á okkar ábyrgð að vernda þau,“ segir Tinna.

Verkefnið náði nýjum hæðum í Túnis

Að sögn Tinnu hefur RTP verkefnið verið framkvæmt í fimm löndum í heiminum með mismunandi áherslum sem voru m.a. aðlöguð eftir menningu og ástandi í hverju landi fyrir sig.

„Í Addis Ababa í Eþíópíu var svipað verkefni framkvæmt sem og í Palestínu. Þar var verkefnið framkvæmt með tilliti til ástandsins á Gazasvæðinu og þar bar verkefnið yfirskriftina „I Have a Right to Play on a Battlefield“ til þess að vekja athygli á ástandinu og fyrst og fremst til þess að dreifa huga margra þeirra barna sem urðu fyrir gríðarlegu áfalli. Í tilefni af alþjóðlega friðardeginum skipulögðum við verkefni með innflytjendum á Spáni sem byggði á svipaðri hugmynd,“ segir Tinna.

RTP var framkvæmt í Túnis í byrjun desember. Tinna segir að þá hafi verkefnið náð nýjum hæðum.

„Til þess að tryggja sem mestan árangur leggjum við mikla áherslu á að vinna með svæðisbundum hagsmunaaðilum. Í þetta sinn unnum við í samstarfi við „The National Organization of Childhood“ í Túnis og tvö munaðarleysingjahæli staðsett í Bardo og Cité Khadra. Verkefnið hófst á vettvangsrannsókn þar sem við funduðum talsvert með yfirmönnum þessara stofnanna til þess að safna upplýsingum um fyrirkomulag, helstu áskoranir og meginreglur til að tryggja gagnkvæman skilning. Þar könnuðum við aðstæður barnanna, fengum upplýsingar um bakgrunn og heilsufar þeirra.“

Tinna, ásamt sérstöku RTP teymi framkvæmdum íþrótta- og leikjanámskeið fyrir 65 börn  á aldursbilinu 6-17 ára. Var unnið með tvö meginþemu, hópefli og sjálfsstyrkingu sem var samtvinnað inn í hefðbundna fótboltaæfingu og rúbbíleiki fyrir þá sem það kusu heldur. Námskeiðið endaði með stóru íþróttamóti þar sem börnin kepptu í fótbolta og rúbbí. Í samvinnu við ýmsa styrkaraðila náði Tinna og félagar að tryggja aðgang að fótboltavelli, búninga, legghlífar, skó, og verðlaun fyrir öll börnin.

„Í samhengi við lýðræðisumskiptin í Túnis og í tilefni af því að samfélagið er í miðju ferli forsetakosninga, nýttum við jafnframt tækifærið og kynntum börnin fyrir lýðræðislegri aðferð þess að velja leiðtoga. Við framkvæmdum leynilega og lýðræðislega fyrirliðakosningu sem var í hávegum höfð fyrir mótið. Þetta var tilraun til þess að vekja upp lýðræðisvitund meðal barnanna,“ segir Tinna sem bætir við að kosningin hafi vakið upp mikla spennu og börnin haft gaman af.

„Mín tilfinning var sú að þau gerðu sér grein fyrir því að aðferðin var sanngjörn. Kjörnir fulltrúar liðanna fengu fyrirliðabönd og gott tækifæri til þess að þróa leiðtogahæfni sína með vel skilgreinda ábyrgð á upphitun, hvetja lið sitt og halda hópnum saman.“

Stúlkur oft útilokaðar í samfélaginu

Að sögn Tinnu leggur GNRD mikla áherslu á kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Hún segir að  það sé þó mikilvægt að hafa í huga samfélagslega stöðu kvenna í Túnis í tengslum við þátttöku stelpna. „Til að nefna dæmi að það þá bauð aðeins ein kona af 27 kandídötum fram í nýafstöðum forsetakosningum, sem er mjög lýsandi fyrir stöðu kvenna í Túnis - sem er þó nokkuð góð í samanburði við önnur arabaríki,“ segir hún. Bætir hún við að karlmenn séu miklu meira áberandi í Túnis heldur en konur. 

„Svipað mynstur má sjá meðal barna, í Túnis er mjög algengt að sjá einungis hópa af strákum úti að leika sér í fótbolta. Vegna menningar og trúarbragða er það oft ekki í boði fyrir stelpur að leika sér úti en þær hafa öðrum störfum að gegna á heimilinu. Þær eru oft útilokaðar og njóta síður réttinda til þess að leika sér. Jafnframt er það oft ekki talið viðeigandi að stelpur keppi í íþróttum, vegna þess að þær eru stelpur,“ segir Tinna.

Hún segir að vegna þess er það eitt af helstu markmiðum RTP verkefnisins að vinna markvisst að því að stuðla að gagnkvæmri virðingu kynja og breyta hlutverki stelpna frá því að vera „áhorfendur“ yfir í virka „þátttakendur“ í íþróttum.

„Ég fékk nokkrar viðvaranir þegar ég tilkynnti fólki að ég ætlaði að láta stelpur spila fótbolta. Maðurinn sem sá um búningana ráðlagði mér að láta sauma sérstaka búninga á stelpur, allavega síðbuxur. Yfirmenn munaðarleysinghælanna ráðlögðu mér finna upp á sérstökum leikjum fyrir stelpur vegna þess að „þeim finnst fótbolti ekki skemmtilegur“ að þeirra sögn. Ég var mjög varkár, einbeitti mér að því að bera virðingu fyrir menningunni og hafði þessar ráðleggingar sérstaklega í huga. Svo að ég undirbjó mig fyrir mjög erfiða áskorun, var alveg tilbúin með plan A, B og C - því ég vissi að ég var að fara að ógna siðum og venjum töluvert,“ segir Tinna.

Í byrjun námskeiðsins kynjaskipti hún börnunum. Strákunum var gert grein fyrir því að GNRD væri að halda námskeiðið til þess að stuðla að jöfnum réttindum allra barna til að leika sér, þá einnar helst samstöðu og virðingu á milli kynja. Tinna segir að margar stelpur voru að spila fótbolta í fyrsta sinn og voru dálítið feimnar við það. „Ég tók sérstaklega eftir því að þegar ég slóst í hópinn og spilaði með þeim jókst áreynslan og viljinn. Skýringuna veit ég ekki, en ég giska á að ég hafi sýnt þeim að það sé í lagi að konur spili fótbolta og að það getur verið gaman. Daginn eftir blandaði ég saman kynjum þar sem þau höfðu val um ýmsa leiki. Það kom mér á óvart hvað margar stelpur völdu fótbolta og spiluðu þar af leiðandi með strákunum. Nokkrar af þeim voru áberandi betri en sumir strákarnir og þessi blanda virtist ekki hafa nein áhrif á leikinn, mér til mikillar hamingju.“

Þegar það kom að mótinu sjálfu blandaði Tinna kynjum saman og skipti í lið aðallega eftir aldri. Voru stelpurnar þá 23 á móti 42 strákum. „Það vakti athygli mína hversu margar stelpur buðu sig fram í fyrirliðahlutverkið og 2 stelpur af 9 fyrirliðum voru kjörnar. Hlutfallslega séð var ég yfir mig ángæð og á þeim tíma fannst mér ég hafa staðist áskorunina. Upplifunin að sjá strák gefa boltann ítrekað yfir á kvenkyns samherjann sinn var ólýsanleg og það var alveg með eindæmum að sjá stráka og stelpur fagna saman sem eitt lið þegar flautað var til leiksloka.“

Tinna segir að með sérstöku eftirliti og stuðningi náðist að tryggja að ein stelpa með fötlun tæki þátt og jafnframt nokkur önnur börn með ýmsar raskanir, heilsufars- og hegðunarvandamál. „Allir fengu að vera partur af liði og allir höfðu gaman,“ bætir Tinna við.

„Ég gerði ráð fyrir því að öllum þætti gaman að taka þátt en ég gerði mér grein fyrir því að það hafa ekki allir jafn gaman af fótbolta eða rúbbí og aðrir. Svo að við skipulögðum danskennslu líka á milli leikja þar sem allir dönsuðu í takt, börn, unglingar, karlar og konur. Við höfðum yngri börnin sérstaklega í huga þarna en við dansinn skemmti ég mér áreiðanlega mest.“

Vöktu athygli stjórnvalda og forsætisráðherra hafði samband

Fengnir voru þrír heiðursgestir til þess að koma og veita verðlaun og hvetja börnin áfram eftir mótið. Það voru Mohammed Tlili ben Abdallah, Ólympíugullhafi, Nadia Gammoudi, þjóðþekktur sigurvegari í Rally akstri og Saad Shadad Al-Asmari, margfaldur sigurvegari í grindahlaupi. Öll börnin fengu medalíu fyrir þátttöku.

„Við uppgötvuðum að munaðarleysingjahælin höfðu ekki aðgang að interneti og mjög gamlar tölvur sem virkuðu ekki lengur. Börnin gátu því ekki skilað inn heimanámi sínu á tölvutæku formi eða heimaverkefni sem kröfðust aðgang að upplýsingu á netinu. Svo að við söfnuðum fé og gáfum þeim fartölvur, prentara og aðgang að interneti,“ segir Tinna. 

„Verkefnið vakti mikla athygli fjölmiðla og við fengum stórt pláss í fréttum sunnudagssjónvarpsins. Við vöktum athygli stjórnvalda og forsætisráðherra Túnis hafði samband til að þakka okkur fyrir framlagið.“

Eins og áður kom fram er Tinna verkefnastjóri hjá GNRD. Hún starfar að mestu innan deildar um réttindi barna og er m.a. ábyrg fyrir „I Have a Right to Play” verkefninu og þróun þess. 

Að hjálpa bágstöddum er ástríða

Tinna segist hafa farið út í þessi störf af einlægum áhuga.

„Ég hef stundað íþróttir frá því að ég var barn og á táningsaldri var fótbolti hreinlega allt mitt líf. Ég menntaði mig með það að markmiði að undirbúa mig fyrir starf á alþjóðlegum vettvangi, ég lærði bæði stjórnmála- og þróunarfræði þar sem ég lagði sérstaka áherslu á mannréttindi, því þar liggur áhugasvið mitt. Að hjálpa bágstöddum er mín ástríða. Ég hef aldrei þolað óréttlæti og það drífur mig mjög áfram þegar mér tekst að hafa einhverskonar áhrif.

Mörg barnanna sem Tinna hitti í Túnis glíma við ýmis sálfræðileg vandamál sökum þess að þau hafa á sinni stuttu ævi þurft að ganga í gegnum margt sem börn ættu aldrei að þola.

„Það var þarna einn drengur sem grét mikið af lítilli ástæðu. Þarna var annar unglingsstrákur sem var sendur á munaðarleysingjahæli vegna þess að pabbi hans sat í fangelsi fyrir að hafa drepið móður hans. Þarna voru börn sem höfðu flúið heimili sín vegna ofbeldis eða kynferðislegrar misnotkunar,“ nefnir Tinna sem segiri að um helmingur þeirra eiga engan að og því engan stað að vernda.

„Mörg af þeim eiga annað foreldrið, oftast móður sem getur ekki séð fyrir þeim, oftast vegna atvinnuleysis. Eitt barnið á til dæmis blinda og heimilislausa móður sem kemur í heimsókn um helgar. Það voru líka nokkuð mörg dæmi um börn sem eiga báða foreldra sem einfaldlega geta séð fyrir þeim, þess vegna búa þau á hælinu á virkum dögum þar sem þau fá mat, klæði, búnað fyrir skólann og öruggan stað til að sofa á. Svo um helgar fara þau heim til foreldra sinna.“

Tinnu var sagt að mörg barnanna vilja stundum ekki fara heim og þau þurfa þess ekki ef þú vilja það ekki. „Þetta eru börn sem koma frá heimilum þar sem þau eiga ekki rúm, peningur fyrir mat er ekki til, þar er hvorki klósett né staður til að þvo sér. Flest þeirra eru með mjög lítið sjálfstraust, eru með brotna sjálfsímynd og eiga í erfiðleikum með að treysta öðrum. Einn strákur sagði samstarfsfélaga mínum að honum langaði til þess að deyja,“ segir Tinna. Hún bætir við að vegna menningarsiða ávarpa börnin starfsmennina á munaðarleysingjahælinu formlega og fá ekki að mati Tinnu þá ást sem börn þurfa, svo sem öryggi, væntumþykju, örvun og athygli.

„ Á meðan ég vann með þessum börnum börðust þau um athygli mína. Ef ég hrósaði einhverjum þurftu margir aðrir hrós og oft hrópuðu mörg þeirra „Tinna sjáðu mig! Sjáðu mig líka!”. Einn strákur snéri sig á ökla og ég settist niður með honum til að skoða og kæla öklann. Þau umkringdu mig og þóttust öll vera eitthvað slösuð, ég gaf einum plástur á lítið sár sem hann var með og hin grátbáðu mig um plástur. Ég endaði með því að faðma þau öll í staðinn til að geta haldið æfingunni áfram, þá myndaðist röð og einn strákur fór þrisvar í röðina til að fá faðmlag,“ segir hún. 

Tinna segir að GNRD sé jafnframt í eftirlitshlutverki og ef það kemur til þess að við verðum vitni af alvarlegum mannréttindabrotum tilkynna starfsmenn þau. Samtökin beita sér jafnframt í því að þrýsta á ákvarðanatakanir alþjóðastofnanna. 

„Í september á þessu ári nýttum við tækifærið á mannréttindaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf þar sem möguleikar þess að nýta íþróttir og ólýmpíska hugsjón til þess að stuðla að mannréttindum var á dagskrá. Þar biðluðum við til ráðgjafanefndarinnar um að leggja meiri áherslu á berskjölduð börn og jafnrétti í því samhengi.  Við stefnum á að gera verkefnið að sjálfbæru og alþjóðlegu fyrirbæri.

Facebook síða GNRD

Tinna Isebarn
Tinna Isebarn
Börnin nutu þess að spila fótbolta.
Börnin nutu þess að spila fótbolta.
Tinna í Túnis
Tinna í Túnis
Allir fengu verðlaunapening.
Allir fengu verðlaunapening.
Verkefnið vakti athygli fjölmiðla.
Verkefnið vakti athygli fjölmiðla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert