7 leiðir til að gefa skárri gjafir

Verslanir fyllast iðulega af fólki rétt fyrir jólin.
Verslanir fyllast iðulega af fólki rétt fyrir jólin. mbl.is/Golli

Það getur tekið á taugarnar að finna réttu gjafirnar fyrir fjölskyldu og vini í jólaösinni. Sumir upplifa vonbrigði eða vandræðalegheit í augum ástvina sinna jól eftir jól og vita bara ekkert hvað hægt er að gera í því. Margir hafa eflaust leitað til Google eftir hinni fullkomnu jólagjöf en jafnvel leitarvélin alvitra getur ekki alltaf reddað málum. Hér að neðan má hins vegar finna sjö ráð sem öll byggjast á vísindalegum rannsóknum. Listinn er upprunalega tekin saman af Science of Us og vonandi getur hann gagnast örvæntingarfullum gjafaklúðrurum á síðustu metrunum fyrir jól.

1. Gefðu þeim það sem þau báðu um

Það getur virkað ópersónulegt að velja eitthvað af óskalista en hins vegar getur það aukið líkurnar á því að sá sem fær gjöfina kunni að meta hana. Í rannsókn sem birt var í The Journal of Experimental Social Psychology var þátttakendum sagt að ímynda sér að þeir væru að gefa maka sínum gjöf  eða fá gjöf. Í aðskildri rannsókn voru þátttakendur spurðir út í upplifun sína af því að gefa eða þiggja gjafir af gjafalista fyrir brúðkaup. Í báðum tilfellum sögðu þeir sem þáðu gjafirnar að þeir óskuðu þess að þeir sem gáfu hefðu haldið sig við listann. Þeir mátu gjafirnar af listanum sem hugulsamari en aðrar þrátt fyrir að þeir sem gáfu gjafirnar teldu almennt að gjafir utan listans yrðu metnar hugulsamari.

 2. Ekki óttast að kaupa sömu gjöfina handa mörgum á listanum þínum

Í rannsókn sem birtist í The Journal of Consumer Research komst Mary Steffel, prófessor í markaðsfræði, að því að þegar fólk kaupir gjafir fyrir marga í einu á það til að leggja áherslu á að finna einstakar gjafir fyrir hvern og einn, þrátt fyrir að þeir sem eigi að fá gjafirnar þekkist ekki og geti ekki komist að því að þeir hafi fengið sömu gjöfina. Samkvæmt rannsóknum Steffel þýðir það að fólk kaupir síður sömu góðu gjöfina handa mörgum heldur velur einn úr sem fær góða gjöf og aðrir fá meira óspennandi gjafir.

3. Reyndu að ímynda þér hvað fólk á listanum þínum myndi kaupa handa sér sjálfu

Í fyrrnefndri rannsókn Mary Steffel voru þátttakendur beðnir að ímynda sér að þeir ættu að kaupa DVD-disk handa tveimur frænkum sínum, Söruh og Steph. Báðar frænkurnar kunna mest að meta teiknimyndir en Steph kann einnig að meta vísindaskáldskap. Þátttakendur fengu lista af kvikmyndum, þ.á m. Disney-myndina Up sem var eina teiknimyndin á listanum. Þegar þeim var sagt að ímynda sér hvaða mynd Sarah og Steph myndu velja fyrir sig sjálfar völdu þátttakendur Up fyrir þær báðar. Þegar enginn slíkur fyrirvari var gefinn var Sarah sú eina sem fékk Up. Við virðumst ekki ósjálfrátt setja okkur í spor annarra og því er gott að muna eftir því við gjafainnkaup.

4. Ekki ofgera í eyðslunni

Þrátt fyrir að okkur finnist gaman að gefa stórar og dýrar gjafir vilja flestir fá gjöf sem er handhæg og heppileg fyrir viðkomandi samkvæmt rannsókn sem birtist í The Journal of Consumer Research fyrr í ár. Þátttakendur voru ýmist beðnir að ímynda sér að þeir keyptu hugbúnað til að breyta ljósmyndum handa ástvini sínum eða að þeir hefðu fengið slíkan búnað að gjöf. Þeir sem gáfu vildu frekar gefa búnað sem bauð upp á meiri gæði en var flóknari á meðan þeir sem fengu gjöfina vildu frekar að búnaðurinn væri einfaldari í notkun þrátt fyrir að það kæmi niður á gæðum hans. Svipaðar niðurstöður komu í ljós þegar um ræddi gjafabréf á tvo veitingastaði sem voru annars vegar í klukkutíma akstursfjarlægð og hins vegar í fimm mínútna fjarlægð. Þrátt fyrir að sá sem væri lengra í burtu þætti bera af hvað gæði varðaði völdu þátttakendur frekar að þiggja gjafabréf á þann stað sem auðveldara var að komast á.

5. Það er hugurinn sem gildir og það getur hjálpað að nefna hann

Þátttakendum var gefin furðuleg gjöf, lítil tréreglustika, í rannsókn sem greint var frá í The Journal of Experimental Psychology árið 2012. Þegar þátttakendum var sagt að reglustikan hafði verið valin sérstaklega fyrir þá mátu þeir hana sem betri en annars. Skrítnar gjafir virðast sumsé ekki jafnslæmar þegar þú veist að sá sem gaf var í það minnsta að reyna að vera hugulsamur.

6. Ekki gefa litla gjöf með stórri gjöf

Svo virðist sem litlar aukagjafir dragi úr gildi stórra gjafa. Rannsókn Kimberlee Weaver sem birtist í The Journal of Consumer Research var ætluð markaðsfólki en við getum öll lært eitthvað af henni. Þátttakendur sem áttu að ímynda sér að þeir væru að kaupa iPod Touch mátu verðgildi hans lægra þegar honum fylgdi frítt niðurhal á einu lagi úr iTunes. Af því má leiða að stórar gjafir gætu virst tilkomumeiri þegar þær eru gefnar einar og sér.

7. Gefðu reiðufé ef þú ert í vafa

Rannsóknin um óskalistana sem nefnd var hér í upphafi leiddi einnig af sér þá niðurstöðu að hvort sem fólk setur það á listann eða ekki þá langar það alltaf í meiri pening. Þátttakendur gerðu óskalista sem innihélt gjafir fyrir 15 Bandaríkjadali. Voru þátttakendur beðnir að ímynda sér að þeir fengju gjöf af listanum, óumbeðna gjöf eða 15 dali í reiðufé. Reiðuféð var það sem flestir vildu helst af öllu.

Metnaður við innpökkunn getur sýnt hugann á bakvið gjöfina.
Metnaður við innpökkunn getur sýnt hugann á bakvið gjöfina. mbl.is/Þórður
Stundum þarf ekki að fara í allar búðirnar til að …
Stundum þarf ekki að fara í allar búðirnar til að finna mismunandi gjafir.
Jafnvel jólasveinarnir klúðra stundum gjöfunum.
Jafnvel jólasveinarnir klúðra stundum gjöfunum. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert