Ætluðu að „hjálpa“ vini sínum

mbl.is/Þórður

Þrír karlmenn voru færðir í fangageymslur á Akureyri á fimmta tímanum í nótt fyrir slagsmál utan við Kaffi Amor á Strandgötu. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri átti raunar aðeins að handtaka einn mannanna en tveir vinir hans hugðust „hjálpa honum“ og veittust að lögreglu. Voru þeir því handteknir honum til samlætis.

Nokkuð erilsöm nótt var hjá lögreglunni á Selfossi þar sem fimm voru teknir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Í morgun sinnti lögreglan á Húsavík útkalli vegna bílveltu í Aðaldalshvammi. Ein kona var í bílnum en meiðsl hennar munu vera minniháttar. Að sögn lögreglu er „glóandi svell“ í Þingeyjarsýslu þessa stundina og er fólk sem á ferð um svæðið beðið að fara að öllu með gát.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert