Engin viðskipti með mjólkurkvóta

Mjög góð sala hefur verið á mjólkurafurðum á þessu ári.
Mjög góð sala hefur verið á mjólkurafurðum á þessu ári. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Horfur eru á að engin viðskipti verði með mjólkurkvóta á næstunni. Sala á mjólkurvörum hefur aukist mikið og framleiðsluheimildir verið auknar verulega.

Fyrir helgi gaf landbúnaðarráðherra út regluverð um greiðslumark. Helstu atriði reglugerðarinnar eru að ráðherra hefur staðfest tillögu Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um 140 milljón lítra greiðslumark árið 2015.

Fjallað er um reglugerðinni á vef Landsambands kúabænda. Þar segir: „Jafnframt þótti rétt vegna þessarar miklu aukningar greiðslumarksins að setja ákvæði í reglugerðina sem tekur af allan vafa hvaða varðar þá stöðu sem upp kemur, ef heildarframleiðsla mjólkur verður minni en greiðslumarkið á komandi ári. Fari svo, skal ónotuðum beingreiðslum jafnað út á allt innvegið mjólkurinnlegg greiðslumarkshafa.“

Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda ritar leiðara í tilefni af útkomu reglugerðar um greiðslumark.

„Þegar horft er til þess útlits sem er í framleiðslu og sölu mjólkurafurða næstu misseri og ár, bendir flest til að lítil sem engin viðskipti verði með greiðslumark undir gildandi fyrirkomulagi og þar með lokist að mestu fyrir nauðsynlegar tilfærslur framleiðsluheimilda milli bænda. Þetta er einkum bagalegt fyrir aðila sem eru að hefja búskap og hafa lítið sem ekkert greiðslumark, þeim mun að óbreyttu lítið sem ekkert nýtast þær breytingar sem lagðar eru til á fyrirkomulagi beingreiðslna. Þá er í þessari stöðu mjög snúið að flytja greiðslumark milli lögbýla, til að nýta betri húsakost og jarðnæði. Vegna þess hversu lítil hreyfing hefur verið á kvótamarkaði, hafa óskir um að gerðar verði undanþágur frá gildandi fyrirkomulagi, sem heimili m.a. flutning greiðslumarks milli jarða við sérstakar aðstæður, orðið háværari. Allar slíkar undanþágur fela hinsvegar alltaf í sér hættu á að upp komi álitamál og því eðlilegra allir sitji við sama borð hvað þetta varðar. Þá grafa allar undanþágur sem gerðar eru undan virkni núverandi fyrirkomulags og því eðlilegra að það sé að fullu tekið úr sambandi meðan þetta ástand varir,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert