Dúxinn stefnir í guðfræðinám

Baldur Gíslason - fráfarandi skólameistari, Árni Þór Þórsson - dúx …
Baldur Gíslason - fráfarandi skólameistari, Árni Þór Þórsson - dúx Tækniskólans, Bjargey Gígja Gísladóttir - skólastjóri Upplýsingatækniskólans, Jón B. Stefánsson - skólameistari

Árni Þór Þórsson sem útskrifaðist frá Upplýsingatækniskólanum á laugardaginn fékk verðlaun Tækniskólans fyrir besta heildarárangurinn. Árni lauk sérsviði í prentun en segir áhugann hafa komið upp þegar hann lauk námi á sérsviði í grafískri miðlun.

„Ég hafði enga hugmynd um að ég myndi dúxa,“ segir Árni einlæglega. „Ég var bara að búast við því að ná í þetta skírteini og fara heim.“ Árni segist að vonum sáttur með árangurinn  og að hann hafi fagnað með vinum um kvöldin. Veisluhöld bíði hinsvegar þar til hann hefur lokið stúdentsprófi en það stefnir hann á að gera á næstu önn. Eftir stúdent stefnir hann hinsvegar á guðfræðinám í Háskóla Íslands.

„Ég hef bara áhuga á trúarbrögðum,“ segir Árni um ástæður þess að guðfræðin sé efst á lista. Hann útilokar ekki að leggja fyrir sig prestnám í framtíðinni en segir það alfarið velta á því hvernig honum líkar námið þegar þar að kemur.

En skyldi Árni mæla með iðnnámi fyrir annað ungt fólk? 

„Já, sérstaklega ef fólk stefnir á stúdentinn eins og ég, þá er ekkert verra að hafa starfsnámið með,“ segir Árni sem segist viss um að reynsla af iðnnámi auki möguleika manns í atvinnulífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert