Leita læknis eftir neyslu orkudrykkja

Talsvert úrval er af orkudrykkjum í verslunum.
Talsvert úrval er af orkudrykkjum í verslunum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Nokkuð er um að íslensk börn og ungmenni leiti læknisaðstoðar eftir neyslu orkudrykkja sem innihalda koffín. Erlendar rannsóknir sýna að neysla barna á slíkum drykkjum hefur aukist umtalsvert, en engar rannsóknir á því sviði hafa verið gerðar nýlega hér á landi. Næringarfræðingur segir að gera megi gera ráð fyrir að þróunin hafi orðið svipuð hérlendis, ekki síst vegna þess að orkudrykkir séu í auknum mæli markaðssettir sem heilsuvara. Læknir segir fyllstu ástæðu til að vera á varðbergi vegna þessara drykkja

Auk koffíns innihalda þeir orkudrykkir sem hér eru til umfjöllunar oft ýmis önnur virk efni eins og ginseng og tárín sem er örvandi efni. Allur gangur er á því hvort þeir eru sykraðir eða með gervisætu. Samkvæmt reglugerð sem sett var í ár er hámarksmagn koffíns í drykkjum 320 mg í hverjum lítra.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) kannaði neyslu orkudrykkja í 16 löndum ESB árið 2011. Þar kom m.a. fram að 68% barna og ungmenna neyta orkudrykkja og var dagleg meðaltalsneysla 0,5 lítrar á dag. Í haust hvatti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO til þess að aldurstakmörk yrðu sett á það hverjir geti keypt orkudrykki.

Miklu meira en ráðlagt er

Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir í Hafnarfirði segir ríka ástæðu til að vara við því að börn neyti koffínríkra orkudrykkja. „Þeir eru margir hlaðnir koffíni, fullorðnir hafa margir hverjir aðlagast koffínneyslu, en það hafa börn ekki,“ segir Vilhjálmur og nefnir í þessu sambandi drykk sem inniheldur 200 mg af koffíni í flösku, en hámarksdagsskammtur fyrir 50 kg barn er 125 mg.

Í störfum sínum hefur Vilhjálmur sinnt börnum og ungmennum sem hafa fengið mikinn hjartslátt eftir neyslu koffínríkra orkudrykkja. „En ég hef aðallega áhyggjur af áhrifum drykkjanna á hegðun ungmenna, rannsóknir sýna að ýmis hegðunarvandamál geta komið fram. Það er virkileg ástæða til að vara við þessum drykkjum.“

Nýjasta könnunin á neysluvenjum Íslendinga er Landskönnun á mataræði 2010-2011. Þar kemur m.a. fram að 42% stráka drekki stundum orkudrykki og 19% stelpna. Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent í næringarfræði við Menntavísindasvið HÍ, segir að síðan þá hafi fjölbreytni drykkjanna aukist og því sé ekki ólíklegt að ungt fólk drekki nú meira af orkudrykkjum, ekki síst stelpur. „Ef mið er tekið af sýnileika og markaðssetningu á þessum vörum má gera ráð fyrir að neyslan hafi aukist,“ segir Anna Sigríður. Hún segir að drykkirnir hafi breyst undanfarið, nú hafi bæst við koffínríkir drykkir í duftformi sem fólk blandi sjálft. „Í þeim drykkjum eru jafnvel engar hitaeiningar og varan er líkari íþrótta- eða lífsstílsvörum en það gæti valdið því að fólk liti þær öðrum augum en litlu áldósirnar.“

Notaðir til megrunar

Anna Sigríður segir að sumir noti þessa vöru í talsverðu magni, sumir drykkirnir séu m.a. markaðssettir sem leið til að auka fitubrennslu og auglýsingunum sé beint að unglingum. „Það streyma inn vísindagreinar þar sem lýst er yfir áhyggjum af neyslu koffínvara, enda fyllsta ástæða til. Orðið orkudrykkur er villandi, því þessir drykkir eru margir örvandi, en innihalda enga orku. Þeir koma í veg fyrir að fólk finni þreytu; en er það gott og hollt?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert