Söfnunarbauk stolið

Nytjamarkaður ABC fjölskyldurhjálpar
Nytjamarkaður ABC fjölskyldurhjálpar Af Facebooksíðu ABC

Brotist var inn í nytjamarkað ABC fjölskylduhjálpar í Súðarvogi í gær og þaðan stolið söfnunarbauk fullum af mynt. Þetta er í annað skiptið á tveimur mánuðum sem þetta gerist.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var tilkynnt um innbrotið í gærkvöldi en þjófarnir höfðu brotið rúðu til þess að brjótast inn.

Á Facebook síðu ABC fjölskylduhjálparinnar kemur fram að þetta sé í annað skiptið á tveimur mánuðum sem öllu er stolið frá hjálparsamtökunum en til stóð að tæma baukinn á Þorláksmessu. Jafnframt séu skemmdirnar töluverðar.

Gleðileg jól til þín/ykkar sem eruð í svona mikilli þörf...hugsið um öll börnin út í heimi sem hafa ekkert húsaskjól, né vatn ..... Skammist ykkar,“ stendur á Facebook síðu samtakanna sem aðstoða börn sem minna mega sín.

ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988. Starfið snýst um það að gefa fátækum börnum tækifæri til menntunar og hjálpa götubörnum til nýs lífs með því að veita þeim heimili og menntun.

„ABC barnahjálp starfar nú í 8 löndum Asíu og Afríku en þau eru: Indland, Pakistan, Filippseyjar, Kenýa, Úganda, Senegal, Líbería og Burkina Faso. ABC barnahjálp styrkir í dag rúmlega 9.000 börn til náms. Af þeim búa um 2500 á heimavistum og barnaheimilum ABC. ABC skólarnir veita nemendum frá 3ja ára aldri ókeypis menntun, skólagögn, skólabúning, læknishjálp og eina máltíð á dag,“ segir á vef samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert