Sveik út pítsur og bíómiða

Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur semSiggi hakkari, í Héraðsdómi Reykjaness.
Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur semSiggi hakkari, í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, játaði að hafa svikið út eða stolið vörum og þjónustu fyrir um þrjátíu milljónir króna. Þar á meðal var þjónusta bílaleiga og tölvuvörur en einnig hversdagslegri hlutir. Þannig sveik hann út pítsur og bíómiða að andvirði hundruð þúsunda króna.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Sigurð Inga í tveggja ára fangelsi í dag. Samtals þarf hann að greiða um fimmtán milljónir króna í skaðabætur til jafnmargra einstaklinga og lögaðila sem hann hafði að féþúfu með ýmsum hætti.

Hann var meðal annars sakfelldur fyrir að hafa svikið út þjónustu bílaleigufyrirtækja, tölvuvörur, bónvél, verkfæratösku, rafmagnsvespu og hitamyndavél svo eitthvað sé nefnt. Í nær öllum tilfellum óskaði hann eftir reikningsviðskiptum fyrir hönd eignarhaldsfélags og gaf upp nafnið „Jóhann Sigurðsson“.

Í sumum tilfellum nemur andvirði varanna sem hann sveik út hundruð þúsunda króna. Einnig sveik hann þó ítrekað út skyndibita frá veitingakeðjum eins og Dominos, KFC, American Style og TGI Fridays til dæmis. Þannig sveik hann þrjátíu sinnum út mat hjá Dominos á tímabilinu 19. mars til 27. maí árið 2013. Alls borðaði hann fyrir 110.031 krónur á kostnað fyrirtækisins á þessu tímabili.

Þá sveik hann bíómiða, þrívíddargleraugu og og innlausnarmiða á popp og kók út úr Sambíóunum árið 2012 og 2013 að andvirði hátt á annað hundrað þúsunda króna.

Átti að greiða fyrir lífvarðarnámskeið erlendis

Sigurður Ingi sveik ekki aðeins vörur og þjónustu út úr fyrirtækjum heldur var hann sakfelldur fyrir að svíkja fé út úr fjórum einstaklingum. Taldi hann mönnunum trú um að hann ætlaði að opna fyrir þá bankareikninga í Lúxemborg og fékk þá til að millifæra á sig upphæðir sem námu frá nokkrum hundruð þúsunda króna til 2,4 milljóna.

Einum mannanna taldi Sigurður Ingi trú um að fjármununum yrði ráðstafað til að greiða fyrir lífvarðarnámskeið erlendis á vegum Knight Academy.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert