„Við munum rannsaka málið“

Frá vettvangi við Bessastaðatjörn
Frá vettvangi við Bessastaðatjörn mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum ekki komist í þetta, en málið verður tekið til athugunar,“ segir Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun um mál tólf hrossa sem fundust dauð í Bessastaðatjörn í gærmorgun. „Skaðinn er auðvitað skeður, en við munum rannsaka málið,“ segir Sigríður.

Einar Þór Jóhannsson, umsjónarmaður hesthúsa Íshesta, sagði í samtali við mbl.is í gær að málið væri einfaldlega hræðilegt slys. Sjö hestar tilheyrðu Íshestum, en fimm voru í eigu félagsmanna í Hestamannafélaginu Sóta. Einar taldi líklegt að slysið hefði átt sér stað í óveðrinu síðastliðinn þriðjudag, en litið var eftir þeim helgina áður og var þá allt með felldu.

Í 12. grein reglugerðar um velferð hrossa nr. 210/2014 kemur fram að vikulegt eftirlit skuli haft með hrossum sem ganga úti á beit eða á gjöf. Sigríður bendir hins vegar á að neðar í greininni komi fram að aukið eftirlit skuli haft í ákveðnum aðstæðum, svosem ef veður eða aðrar aðstæður krefjast.

„Hestamenn þurfa auðvitað að búa hrossin undir að vera í útigangi í svo vondu veðri, passa að þau hafi fengið að éta og reyna að draga úr allri hættu á að svona atvik eigi sér stað,“ segir Sigríður.

Hrossin höfðu náttúrulegt skjól

Í 18.gr. reglugerðarinnar kemur fram að hross sem ekki hafi fullnægjandi náttúrulegt skjól skuli hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum. Einar bendir hins vegar á að náttúrulegt skjól sé á svæðinu og hestar hafi verið þar stórslysalaust í um hálfa öld.

„Þarna er náttúrulegt skjól sem hrossin standa öll við, þetta er mjög óvenjulegt slys og maður veit einfaldlega ekkert hvað gerðist. Það hafa verið hestar þarna í 40-50 ár og ekkert á borð við þetta gerst áður. Þetta er bara með ólíkindum,“ segir Einar.

Sigríður segist ekki muna eftir öðru eins tilviki úr sínu starfi.

„Við erum með um 70-80 þúsund hross í útigangi að jafnaði. Það fer auðvitað öðru hvoru eitt og eitt hross út í skurð, en ég man ekki eftir svona stóru tilviki áður.“

Hún segir rétt að hestamenn læri af slysinu og fylgist vel með hrossum þegar aðstæður eru erfiðar.

„Ég hvet hestamenn til þess að gæta vel að dýrunum þegar veður og aðstæður eru misjafnar og við skulum láta þetta atvik verða okkur öllum að áminningu um það.“ 

Þyrla og kafarar tóku þátt í aðgerðum

Hræ dýranna voru hífð upp úr tjörninni í morgun, en þyrlur og kafarar komu að aðgerðinni. Hún tók um hálfa klukkustund og gekk vel að mati Jóhanns kolbeins hjá Hestamannafélaginu Sóta. Hræin voru flutt á urðunarstöðina við Álfsnes.

Reglugerð um velferð hrossa

Fréttir mbl.is: 

„Þetta eru dýrin okkar og vinir“

Hestarnir allir komnir á þurrt

Tólf hestar undir ísnum í Bessastaðatjörn

Kafarar komu að aðgerðunum í morgun
Kafarar komu að aðgerðunum í morgun mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert