Yfir 100.000 spilanir með Tímaflakki á dag

Af Síminn.is

Tímaflakk í Sjónvarpi Símans er nú notað eitt hundrað þúsund sinnum á hverjum einasta degi. Það jafnast á við að hvert  heimili með Sjónvarp Símans spili minnst tvo dagskrárliði á dag með hjálp Tímaflakksins.

„Tímaflakkið hefur einfaldlega breytt sjónvarpsnotkun svo margra landsmanna til frambúðar. Notkunin hefur aukist jafnt og þétt frá því að það fór í loftið í janúar 2013. Þá voru spilanirnar tvö þúsund á dag, þróuðust í 15 þúsund spilanir annan mánuðinn og þaðan hratt upp í fimmtíu þúsund spilanir á dag. Nú í haust voru þær komnar í 100 þúsund á hverjum einasta degi,“ er haft eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, í fréttatilkynningu.

Tímaflakkið virkar þannig að áskrifendur kalla fram dagskrá sjónvarpsstöðvanna með fjarstýringunni, velja þann þátt sem sýndur var síðasta sólarhringinn og spila.

„Við sjáum notkunina vaxa jafnt og þétt. Við vitum að margir horfa ekki orðið á sjónvarp nema með Tímaflakki. Sunnudagarnir eru langvinsælastir og augljóslega sjónvarpskvöld landsmanna. Þá horfa þeir á það besta frá laugardagskvöldinu og raða upp dagskránni eins og hentar þeim best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert