Allt reynt til að aðstoða stúlkurnar

Yus­h­an Chai og Jix­in Yu.
Yus­h­an Chai og Jix­in Yu.

„Persónulega finnst mér ábyrgðarleysi af farþega sem er með svona mikilvæg gögn í sínum farangri að passa ekki betur upp á farangurinn. Farþegi sem er að fara í hestaferð getur ekki litið á hópferðabíl sem öruggan geymslustað fyrir sinn handfarangur og ætlast til að bílstjórinn passi eigur sínar óumbeðinn.“

Þetta segir Rúnar Garðarsson, rekstrarstjóri Gray Line, vegna frétta af kínversku stúlkunum Yus­h­an Chai og Jix­in Yu sem glötuðu handfarangri sínum, og þar á meðal vegabréfum sínum, fyrir jól þegar þær fóru í hestaferð hér á landi á þorláksmessu. Þær segjast hafa skilið hann eftir í rútu á vegum Gray Line sem flutti þær á staðinn en rútan hafi hins vegar verið farin að hestaferðinni lokinni. Þær fóru af landi brott í kvöld og flugu til Bretlands. Ætla þær að freista þess að komast inn í landið þar sem þær stunda nám þó þær séu aðeins með bráðabirgðavegabréf án breskra vegabréfsáritana.

Öllum verklagsreglum fyrirtækisins fylgt

Rúnar segir að Gray Line hafi gert allt til þess að reyna að aðstoða stúlkurnar. Meðal annars greiddi fyrirtækið hótel fyrir þær þá daga sem þær töfðust hér á landi vegna málsins og flug til Bretlands. Hins vegar hafi handfarangur þeirra ekki fundist í rútunni þrátt fyrir ítarlega leit. Þrisvar hafi verið leitað í henni. Bílstjórinn hafi tvisvar tilkynnt farþegum að hann væri á förum þegar komið var með þá að hestaleigunni og kæmi ekki aftur. Eigandi hestaleigunnar hafi staðfest það. „Allir aðrir farþegar í umræddri ferð sem voru 17 talsins virðast hafa heyrt í bílstjóranum um að taka allan handfarangur með sér er komið var í hestaleiguna nema þessar stúlkur.“ Öllum verklagsreglum hafi verið fylgt í þeim efnum.

„Stelpurnar fullyrða einnig að í þessum bíl hafi verið myndavél, það er engin myndavél í okkar bílum og hefur aldrei verið,“ segir Rúnar og vísað þar til þeirra ummæla stúlknanna að þær hafi séð eftirlitsmyndavélar í rútunni. Það sé heldur ekki rétt að ekki hafi verið svarað í síma hjá fyrirtækinu um kvöldið eftir að farangurinn týndist. Það hafi önnur stúlknanna viðurkennt. Gray Line hafi reynt að aðstoða stúlkurnar eins og fyrirtækinu hafi verið unnt. Vísar hann þar til tölvupósts frá Jóni Víði Jakobssyni sem var stúlkunum innan handar.

Geta ekki borið ábyrgð á handfarangri

„Það er því miður alltof margir sem treysta á aðra í svona efnum,“ segir Rúnar. Vel sé þekkt þegar farþegum flutningatækja sé ítrekað bent á að taka allan persónulegan farangur með sér þegar þau eru yfirgefin. Hvort sem það eru flugvélar, lestir eða rútur. „Við getum ekki borið ábyrgð á handfarangri farþega, ekki frekar en aðrir flutningsaðilar.“ Þrátt fyrir þetta hafi Gray Line reynt allt til þess að greiða leið stúlknanna. Þær hafi ekki átt fyrir gistingu og verið orðnar peningalitlar. Fyrir vikið hafi fyrirtækið ákveðið að aðstoða þær í þeim efnum. Í því felist hins vegar ekki viðurkenning á bótaskyldu eða nokkru slíku.

Fréttir mbl.is:

Fá farið og gistinguna greidda

Reyna að komast inn í Bretland

Fastar á Íslandi yfir jólin

Kínverskt vegabréf.
Kínverskt vegabréf. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert