Baðst afsökunar á hótuninni

„Hann sendi mér fallegt bréf og afsökunarbeiðni sem ég tók til greina og svaraði bara sömuleiðis,“ segir Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri fréttavefsins Vísir.is, en tónlistarmaðurinn Einar Ágúst Víðisson hafði samband við Kolbein og baðst afsökunar á bréfi sem hann hafði áður sent honum þar sem honum var meðal annars ráðlagt að líta aftur fyrir sig í skammdeginu.

Kolbeinn gat ekki skilið fyrra bréfið öðruvísi en sem hótun og hafði í hyggju að kæra það til lögreglunnar eftir að hafa ráðfært sig við hana. Ástæðan fyrir bréfinu var sú að Einar Ágúst var ósáttur við að Vísir.is skyldi fjalla um gjaldþrot hans. Einar Ágúst hafði ennfremur komið niður í höfuðstöðvar 365 miðla vegna málsins og meðal annars slett kaffi á Kolbein Tuma.

„Ég held að við séum bara á mjög góðum stað,“ segir Kolbeinn spurður hvort þeir Einar hafi þannig sæst vegna málsins. Hann hafi ennfremur hætt við að kæra fyrra bréfið eftir að Einar baðst afsökunar á því. „Í ljósi þessarar einlægu afsökunarbeiðni sá ég ekki ástæðu til að gera mál úr þessu.“

Frétt mbl.is: Hyggst kæra tölvupóstinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert