Rata betur í réttu eyrun

Sólstafir voru að ljúka við tónleikaferð um Evrópu og Bandaríkin.
Sólstafir voru að ljúka við tónleikaferð um Evrópu og Bandaríkin. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Tónleikar íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita í útlöndum hafa verið heldur færri á þessu ári en í fyrra. Um 1.300 nú en voru liðlega 1.400 árið 2013 sem var algjört metár hvað þetta varðar. Að sögn Sigtryggs Baldurssonar, framkvæmdastjóra Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), er árið í ár samt á vissan hátt merkilegra, þar sem fleiri flytjendur eru á bak við heildartöluna nú en í fyrra.

„Á síðasta ári voru öll stærstu númer íslenskrar tónlistarsögu á tónleikaferðalagi, það er að segja Björk, Of Monsters and Men, Sigur Rós og Ásgeir Trausti var byrjaður af fullum krafti. Af þessum hefur bara Ásgeir Trausti verið að túra á þessu ári. Samt erum við í 1.300 tónleikum. Í fyrra voru þessir fjórir flytjendur á bak við stóran part af heildartölunni. Þess vegna má alveg segja að árið sem er að líða sé jafnvel betra en árið 2013. Okkur hefur tekist að breikka útflutning okkar á heildarvísu sem er mjög jákvætt,“ segir hann.

Stærsta tónleikaráðstefna í Evrópu

Á dögunum samdi ÚTÓN við Icelandair og Reykjavíkurborg um áframhaldandi rekstur Iceland Airwaves, Reykjavík Loftbrú og stuðning við íslenska fókusinn á Eurosonic Noorderslag. Sigtryggur segir þetta mjög mikilvægt og ánægjulegt að þessir aðilar skuli styðja þátttöku Íslands í tónlistarhátíðinni Eurosonic nú í janúar. „Við förum út með nítján listamenn á Eurosonic sem er stærsta tónleikaráðstefna í Evrópu en þar koma saman fulltrúar allra helstu tónleikahátíða í álfunni. Þar eru líka flestir helstu tónleikabókarar í Evrópu, þannig að það skiptir gríðarlegu máli að láta sjá sig þarna,“ segir Sigtryggur.

Vægi Eurosonic hefur aukist í réttu hlutfalli við áherslubreytinguna sem er að verða á tónlistarbransanum í heiminum, það er frá útgáfu yfir í tónleikahald. Vaxtarbroddurinn er í því síðarnefnda. „Eurosonic hefur verið að blása út eins og púkinn á fjósbitanum meðan ráðstefna eins og Cannes hefur verið að skreppa saman en þar hefur áherslan verið á útgáfu,“ segir Sigtryggur.

Hann segir ánægjulegt að finna fyrir stuðningi innan kerfisins, eins og samningurinn við Icelandair og Reykjavíkurborg undirstrikar. „Mér finnst ég hafa orðið var við viðhorfsbreytingu þau tvö ár sem ég hef verið hér í starfi. Áhuginn er að aukast og fólk tekur greinilega eftir því starfi sem unnið er hér hjá ÚTÓN,“ segir Sigtryggur.

Loftbrú endurlífguð

Núna í lok árs tókst að endurlífga Reykjavík Loftbrú og koma henni í nýtt horf, að sögn Sigtryggs. Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) kom til að mynda aftur þar inn en árið 2012 var sett inn ákvæði þess efnis að allir sem sæktu um styrk frá Loftbrú yrðu að hafa komið fram á Iceland Airwaves-hátíðinni. Það ákvæði hefur nú verið tekið út. „Loftbrúin hresstist töluvert við þetta og mun koma sterk inn á næsta ári við hlið útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar en ÚTÓN heldur nú utan um báða þessa sjóði. Hægt er að sækja um styrk í hvorn sjóð um sig eða þess vegna báða.“

Spurður um helsta styrk íslensku tónlistarsenunnar nefnir Sigtryggur strax fjölbreytnina. „Ég er oft spurður um þetta íslenska „sánd“ sem heillar svona mikið. Í mínum huga er það ekkert sérstakt „sánd“, heldur miklu frekar „attitjúd“. Íslendingar eru upp til hópa að gera tónlist af ást og umhyggju og á eigin forsendum. Það er enginn að apa endilega eftir U2 eða öðrum frægum hljómsveitum. Íslenska „attitjúdið“ byggist á því að skapa tónlist á sinn hátt og frá hjartanu. Það er kjarninn í allri góðri listsköpun,“ segir Sigtryggur.

Þegar listinn yfir tónleikahald Íslendinga erlendis er skoðaður er maður ekki lengi að nema breiddina. Ef við horfum bara á mánuðinn sem nú er að líða má til dæmis finna Sólstafi, Samaris, Ólöfu Arnalds, Lay Low, Skálmöld, Thugfucker, Ásgeir Trausta og GusGus.

Betri kynningarleiðir

Að sögn Sigtryggs hefur svokölluð indie-músík haft sterkastan hljómgrunn erlendis en innan hennar rúmast mjög ólíkar sveitir. Það sé til dæmis ekki sami hópurinn sem hlustar á Sólstafi og Samaris. „Með tilkomu tækni og betri kynningarleiða hefur íslenskum hljómsveitum og tónlistarmönnum tekist að rata betur í réttu eyrun. Það er vonandi eitthvað sem okkur hjá ÚTÓN hefur tekist að hjálpa til með.“

Viðtalið við Sigtrygg má lesa í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert