Starfsfólkið þekkti sögu þeirra

Þær Yushan Chai (t.v.) og Jixin Ju (t.h.) eru komnar …
Þær Yushan Chai (t.v.) og Jixin Ju (t.h.) eru komnar aftur heim til Bretlands.

Greiðlega gekk fyrir kínversku stúlkurnar tvær sem töpuðu vegabréfum sínum hér á landi fyrir jólin að komast inn í Bretland í gær. Yushan Chai, önnur stúlknanna, segir flugvallarstarfsfólk bæði í Keflavík og á Gatwick hafa vitað af sögu þeirra og þær hafi því lítið þurft að útskýra aðstæður sínar.

Töskur með vegabréfum stúlknanna tveggja og vegabréfsáritun til Bretlands þar sem þær stunda báðar nám urðu eftir í rútu fyrir jólin. Voru þær fastar hér yfir jólin vegna þess að ekki var hægt að útvega þeim nýja vegabréfsáritun sem þær þurftu til að komast aftur til Bretlands. Því afréðu þær að taka áhættuna og fljúga út í gær enda bíða þeirra beggja lokaverkefni og próf í skólanum í janúar.

„Þegar við fórum í innritunina [á Keflavíkurflugvelli] þekkti flugvallarstarfsfólkið sögu okkar. Kona hringdi á flugvöllinn í Bretlandi. Eftir nokkrar mínútur sagði hún að það væri allt í lagi, við værum með öll gögn sem gerðu okkur kleift að taka flug til Gatwick-flugvallar,“ segir Yushan.

Þegar þær komu á flugvöllinn úti var þeim hleypt nánast beint í gegn.

„Ég held að þau hafi líka vitað af okkur. Við þurftum ekki að útskýra mikið. Við sýndum bara tímabundin ferðaleyfi og ljósrit af vegabréfsáritununum. Þá var okkur hleypt inn og við tókum lest til heimaborga okkar,“ segir hún. 

Yushan segist þakka íslenskum fjölmiðlum fyrir að hafa sýnt máli þeirra vinkvennanna áhuga. Hefði flugvallarstarfsfólk ekki vitað af sögu þeirra hefði það mögulega talið þær hafa búið hana til. Þá hefði verið afar erfitt fyrir þær að komast aftur til Bretlands.

Fyrri fréttir mbl.is:

Fastar á Íslandi yfir jólin

Stúlkunum hleypt inn í Bretland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert