Líkamshenging „algjör della“

Vilhjálmur Ari Arason, læknir, segir líkamshífingar vera dellu sem skaði …
Vilhjálmur Ari Arason, læknir, segir líkamshífingar vera dellu sem skaði meira en þau geti mögulega skilað á góðan hátt. mbl.si/Þorkell Þorkelsson

Það að hengja sig upp á líkamanum er ein af þeim leiðum sem fólk hefur fundið upp á til að sefa sig, enda þarf mikla sjálfstýringu til framkvæmdarinnar og í leiðinni næst jafnan ákveðið hugarástand. Aftur á móti er aðferðin í sjálfu sér della, eins og margt annað svipað, sem skapar meiri áhættu á skaða en það góða sem aðferðin getur skilað. Þetta segir Vilhjálmur Ari Arason, læknir, en í gær birti mbl.is myndband þar sem sýnt var frá því þegar einstaklingur lét festa króka undir húðina og hífa sig upp frá jörðinni.

Hindurvitni og della

Myndbandið hefur fengið mismunandi viðbrögð og segja sumir að þeir sem komi að þessu hafi sýnt fagmannleg viðbrögð, t.d. með því að passa upp á sótthreinsun, meðan aðrir telja athæfið algjöra vitleysu. Þá hafa sumir spurt sig hvort þetta hafi slæm áhrif á líkama eða heilsu þess sem hangir.

Vilhjálmur segir líkamshengingar koma frá gömlum ættbálkavenjum og að aðferðin eigi jafnvel eitthvað sameiginlegt með nálastungum. Hann segir þetta aftur á móti vera hindurvitni, eins og margt annað sem tröllríði samfélaginu í allskonar tískubylgjum eða kúrum. „Það er endalaust svona sem er í gangi, en ég er sannfærður um að þetta sé algjör della, það er eitt sem tekur við af öðru,“ segir hann.

Svipuð tilfinning í jóga

„Það að upphífingin sjálf geri eitthvað gott er rugl, fólk getur alveg eins stundað jóga, reynt að fara í trans eða jafnvel farið í fallhlífastökk. Þetta gefur allt svipaða tilfinningu,“ segir Vilhjálmur. Hann telur þó mestu skipta að með þessu sé fólk að bjóða upp á óþarfa sýkingarhættu og þá geti þetta skilið eftir ljóta og stóra bletti á svæðum sem grói almennt illa og hægt, eins og bakinu.

Sýkingarhætta og stór ör

Vilhjálmur hefur síðustu ár skrifað talsvert um líkamsgatanir og húðflúr og segir hann að í líkamsupphífingum þurfi að gata á svipaðan hátt og í annarri líkamsgötun. Segir hann að þetta sé inngrip fyrir líkamann sem auki hættuna á alvarlegum sýkingum.

„Ef það verða sár þarna, þá koma mikil og stór ör,“ segir Vilhjálmur um staðsetninguna á krókunum, sem oft eru á bakinu. Segir hann húðina á bakinu almennt vera sterka, en þegar sár myndist sé hún lengi að gróa. Þannig sé bakið oft „einskinsmannsland“ þegar kemur að lýtalækningum að hans sögn. Fólk velji þennan stað þó oft vegna þess að sársaukatilfinningin þar sé minni en t.d. framan á maganum.

Vilhjálmur segist ekki skilja að fólk taki þátt í öllum þeim tískubylgjum og kúrum sem ganga yfir. „Maður hefði haldið að Íslendingar sem upplýst þjóð tæki þessum málum á upplýstan hátt, en þetta getur verið alvarlegt þegar um heilsuskaðandi atriði er að ræða.“

Frétt mbl.is: Hanga á húðinni

Úr myndskeiði mbl.is um líkamshengingar.
Úr myndskeiði mbl.is um líkamshengingar.
Úr myndskeiði mbl.is um líkamshengingar.
Úr myndskeiði mbl.is um líkamshengingar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka