Art Medica hefur hafnað meðferðum

Síðustu ár hafa komið upp nokkur tilvik þar sem læknar …
Síðustu ár hafa komið upp nokkur tilvik þar sem læknar Art Medica hafa hafnað meðferð þar sem kona vill ekki veita upplýsingar um félagslegar aðstæður sínar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áður en einhleypar konur sem vilja gangast undir tæknisæðingu eða glasafrjóvgun hjá tæknifrjóvgunarstofunni og læknastöðinni Art Medica geta hafið meðferð þurfa þær að fara í gegnum viðtal og skoðanir.

Bæði þarf að kanna líkamlega og andlega heilsu þeirra og þá þurfa þær einnig að veita upplýsingar um félagslegan bakgrunn sinn.

Síðustu ár hafa komið upp nokkur tilvik þar sem læknar Art Medica hafa hafnað meðferð þar sem kona vill ekki veita upplýsingar um félagslegar aðstæður sínar. Að sögn læknis hjá Art Medica þarf að tryggja að barnið fæðist inn í hagstæðar og öruggar aðstæður þegar aðferðir læknisfræðinnar eru nýttar á þennan hátt. 

mbl.is hefur að undanförnu fjallað um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu. Með þessari grein er þeirri umfjöllun haldið áfram. 

Aldurinn skiptir miklu máli

Þegar kona kemur í fyrsta viðtalið hjá Art Medica er farið yfir ýmsa þætti sem snúa að líkamlegri og andlegri heilsu hennar.

„Aldurinn er það krítískasta með tilliti til að líkur séu á góðum árangri. Frjósemi kvenna helst nokkuð jöfn til 35 ára aldurs en svo fer hún hægt og bítandi minnkandi frá 35 ára til 40 ára,“ segir Þórður Óskarsson, læknir hjá Art Medica, spurður um ferlið eftir að einhleyp kona óskar eftir þjónustu stofunnar.

Einnig er farið í gegnum sögu kvennanna og eru þær meðal annars spurðar að því hvort þær hafi verið í sambúð, hvort reynt hafi á þunganir eða hvort eitthvað sé í sögu þeirra sem bendi til þess að þungun gæti orðið vandamál. Þetta geta til dæmis verið atriði líkt og stíflaðir eggjaleiðarar, bólgur eða legslímuflakk.

Auk þess að fara í gegnum viðtal við lækni gangast konurnar undir líkamsskoðun og hormónamælingar þar sem kannað er hvort tæknisæðing sé vænleg til árangurs. 

„Ef þær eru um fertugt og rúmlega það fer manni að liggja meira á, skoða nákvæmar og jafnvel gera kviðspeglun. Við viljum ekki tefja tímann og gera tæknisæðingar sem aldrei ganga upp og förum þá frekar beint í glasafrjóvgun ef svo ber undir,“ segir Þórður.

Fá félagsráðgjafa til að skoða málið nánar

Í viðtalinu er einnig spurt um persónulegar aðstæður kvennanna. Spurningarnar snúa meðal annars að starfi þeirra, líkamlegri og andlegri heilsu, hvort konan hafi verið ófrísk áður, hvort hún hafi átt börn áður og ef svo er, hvar börnin eru í dag. Þá vilja læknarnir einnig vita hvort barnaverndarnefnd hafi þurft að grípa inn í í tengslum við fyrri börn kvennanna.

„Við þurfum að kanna hvort barn sem til verður muni fæðast inn í aðstæður sem eru því hagstæðar og öruggar. Þarna er verið að beita læknisfræðinni til að stuðla að þungun og þá ber okkur að kanna þetta,“ segir Þórður. Ef allt bendir til þess að aðstæður séu góðar getur konan hafið meðferðina þegar hún kýs.

„Ef það er aftur á móti eitthvað í sambandi við félagslegar aðstæður konunnar sem myndi orka tvímælis, þá fáum við félagsráðgjafa til að kafa nánar ofan í það með leyfi konunnar. Ef hún hafnar því og vill ekki veita upplýsingar eða að málið verði skoðað nánar hjá viðkomandi aðilum, þá neitum við meðferð,“ útskýrir Þórður og segir að nokkrum sinnum hafi reynt á þetta hjá Art Medica. 

Nota yfirleitt ekki sæði frá íslenskum karlmönnum

Art Medica kaupir sæði frá tveimur sæðisbönkum í Danmörku sem útvega sæði fyrir mörg lönd. „Við erum með lítinn banka hérna heima með sæði sem við höfum keypt frá þessum bönkum,“ segir Þórður en almennt séð er ekki notað sæði frá íslenskum karlmönnum þegar einhleypar konur koma í tæknifrjógvun.

„Stundum gerist það að einhleypar konur eiga vin sem er tilbúinn að hjálpa þeim og gefa þeim sýni. Þá þarf hann að gangast undir rannsóknir, kanna þarf hvort hann sé smitaður af lifrarbólgu og síðan þarf að geyma sýnið í hálft ár til að útiloka að hann hafi nýlega smitast af eyðni eða lifrarbólgu,“ útskýrir Þórður.

Þegar sýnið hefur verið geymt í hálft ár kemur gjafinn aftur í skoðun. Leiði skoðunin í ljós að allt er eðlilegt hjá manninum er hægt að framkvæma tæknisæðingu.

Ef um að er að ræða vin konu, en ekki karlmann sem hún er í sambúð við, feðrar maðurinn barnið ekki. „Þá eru þeir sæðisgjafar og sæðisgjafi er aldrei faðir barnsins,“ segir Þórður. „Ef hann á að feðra barnið, verða þau að skrá sig í sambúð.“

Í slíkum tilvikum þarf ekki að geyma sæðið í hálft ár, þá má nýta ferskt sýni því þá er um að ræða par sem er foreldrar barnsins.

Geta farið af stað við næstu blæðingar 

Konurnar þurfa að vera skráðar einhleypar í þjóðskrá svo þær megi kaupa þessa tilteknu þjónustu hjá Art Medica.  „Ef þær eru skráðar í sambúð, þá er um að ræða par,“ segir Þórður.

Ekki þarf að líða langur tími frá fyrsta viðtali einhleyprar konu hjá Art Medica fram að fyrstu tæknisæðingu.

„Ef allt kemur eðlilega út í viðtali og skoðun þá er hægt að fara af stað við næstu blæðingar hjá henni. Ef hún er með reglulegar blæðingar og hefur egglos, þá notum við bara náttúrulegan tíðahring og örvum ekki eggjastokkana en þá værum við bara að auka líkurnar á fjölburum,“ segir Þórður að lokum. 

Þórður Óskarsson læknir hjá Art Medica.
Þórður Óskarsson læknir hjá Art Medica. Ómar Óskarsson
Þegar konan kemur í fyrsta viðtalið hjá Art Medica er …
Þegar konan kemur í fyrsta viðtalið hjá Art Medica er farið yfir ýmsa þætti sem snúa að líkamlegri og andlegri heilsu hennar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert