Fjöldi háskólanema strandaglópar

Fjölmargir háskólanemar voru fastir í Staðarskála í Hrútaf­irði í dag en nokkrar deildir úr Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík fóru í skíðaferð norður til Akureyrar um helgina, m.a. verkfræðideild HR, viðskiptafræðideild HR og hagfræðideild HÍ.

Líkt og greint var frá á mbl.is fyrr í kvöld hefur fjöldi fólks verið strandaglóp­ar frá því á fjórða tím­an­um í dag vegna veðurs og hvorki kom­ist lönd né strönd. Nú er það komið í ljós að heiðin verður ekki opnuð á næstunni og heldur því háskólahópurinn í Reykjaskóla þar sem þau hafa fengið inni í nótt.

„Þetta er búið að vera fínt. Hér hafa allir tekið þessu með miklu jafnaðargeði,“ segir Gísli Viðar Eggertsson, rekstrarverkfræðinemi við Háskólann í Reykjavík. Hann fór með nemendafélagi verkfræðinema Háskólans í Reykjavík, Pragma, í skíðaferð til Akureyrar um helgina. Hann segir að hópurinn hafi ekki látið ófærðina á sig fá en segist léttur í bragði vonast eftir því að kennararnir gefi hópnum séns á skiladæmum sem munu að öllum líkindum ekki skila sér á réttum tíma á morgun!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert