Vilja gæðastimpil á íslenska þorskinn

Heiðrún Ingrid Hlíðberg, Egill Sigurðarsson, Helgi Már Hrafnkelsson, Rebekka Rut …
Heiðrún Ingrid Hlíðberg, Egill Sigurðarsson, Helgi Már Hrafnkelsson, Rebekka Rut Gunnarsdóttir og Jóhanna Edwald Ómar Óskarsson

Hnakkaþon fór fram í Háskólanum í Reykjavík um helgina. Hnakkaþon er samkeppni fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og í keppninni fengu þeir tækifæri til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi.

Þau Egill Sigurðarson, Heiðrún Ingrid Hlíðberg, Helgi Már Hrafnkelsson, Jóhanna Edwald og Rebekka Rut Gunnarsdóttir mynduðu sigursveit keppninnar, þverfaglegt lið úr öllum akademískum deildum HR. Þau sækja í framhaldinu stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku sem fram fer í Boston í mars næstkomandi.

Hópurinn lagði til að settur yrði á laggirnar gæðastimpill til að tryggja það að gæði á hverju stigi framleiðslunnar yrðu hámörkuð að sögn Helga Más Hrafnkelssonar, eins meðlims hópsins.

Segir hann að með því mætti auka verðmæti íslenska þorsksins með aukinni eftirspurn.

„Við þekktum lítið inn á fiskvinnslu- og markað áður en keppnin hófst,“ segir Helgi og að keppnin hafi orðið til þess að þau kynntust greininni mjög vel sem kom honum virkilega á óvart.

„Cod by Iceland“

Vinningstillaga hópsins „Cod by Iceland“ sækir innblásturinn til auglýsingaherferðarinnar „Inspired by Iceland“ sem vakti mikla athygli á erlendri grundu en herferðinni var ætlað að auka áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi.

„Við horfum til herferðarinnar Inspired by Iceland sem unnin var af Íslandsstofu. Okkar hugmynd er að þetta verði gert í samvinnu við þá herferð, eins konar afbrigði af henni,“ segir Helgi.

Hann segir fulltrúa Samherja og HB Granda strax hafa sett sig í samband við hópinn og munu fimmmenningarnir kynna lausnir sínar fyrir forsvarsmönnum fyrirtækjanna fljótlega.

Í verkefninu þurftu keppendur að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða.

Dómnefnd skipuðu Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, Guðmundur Jónasson, deildarstjóri ferskfiskdeildar Iceland Seafood, Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar HR, Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskiptafræði HR og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. Ómar Óskarsson
Brugðið á leik.
Brugðið á leik. Ómar Óskarsson
Lið í keppninni heilsar dómnefnd.
Lið í keppninni heilsar dómnefnd. Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert