Hundruð manna föst í Staðarskála

Fjöldi fólks hefur verið strandaglópar í Staðarskála í Hrútafirði frá því á fjórða tímanum í dag vegna veðurs og komist hvorki lönd né strönd. Sigríður Sif, vaktstjóri í Staðarskála, segir að um sé að ræða 300-400 manns og hvert sæti sé skipað í skálanum og ennfremur setið á gólfinu.

„Þeir segja að það eigi að lægja um kvöldmatarleytið en staðarmenn hér segja að það fari enginn yfir Holtavörðuheiðina fyrr en í fyrsta lagi um miðnætti,“ segir hún en heiðinni var lokað í dag vegna óveðurs og ófærðar. Hún segir stemninguna rólega og fólk reyni að gera gott úr stöðunni. „Fólk er bara að fá sér að borða og spjalla. Hér er setið á gólfum og borðum og hvar sem hægt er. Fólk situr bara alls staðar.“ Sigríður segir aðspurð að veðrið á svæðinu sé slæmt, hríðarbylur og ekkert skyggni. „En þetta gengur yfir. Þetta er bara íslenskt vetrarveður.“

Þá sitja tugir bíla fastir á Holtavörðuheiðinni samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og vinna björgunarsveitarmenn að því að koma þeim niður af heiðinni.

Staðarskáli í Hrútafirði.
Staðarskáli í Hrútafirði. mbl./Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert