Íslendingar ótrúlega indælir

Mike Whitten er nokkuð góður ljósmyndari.
Mike Whitten er nokkuð góður ljósmyndari. Ljósmynd/Mike Whitten

Á ferðablogginu Stuck in Iceland skrifar Bandaríkjamaðurinn Mike Whitten um ferð sína um Ísland. Mike þessi er verkfræðingur hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA, en hann býr nærri Houston í Texasríki ásamt stórri fjölskyldu.

Ljósmynd/Mike Whitten

Mike lýsir ferð sinni og félaga síns, Chris Coppicks, í færslunni, þar sem þeir fóru meðal annars ískyggilega nálægt hrauninu frá eldgosinu í Holuhrauni, skoðuðu Jökulsárlón og margt fleira.

Eitt sem kom Bandaríkjamönnunum skemmtilega á óvart var hversu indælt fólkið hér á landi er. Hann lýsir Íslendingum sem hlýjum, vinalegum og hjálpsömum í garð ókunnugra á þeirra eigin landi. Bæði í sveit og borg mætti þeim alls staðar sama góða viðmótið.

Ljósmynd/Mike Whitten

Mike lýsir einu dæmi þegar þeir stoppuðu bílinn úti í kanti til að taka myndir af hestum. Skömmu eftir að þeir höfðu numið staðar tók hann eftir að eigandi hestanna var að koma í áttina að þeim á pallbíl. Mike bjóst við að fá það óþvegið fyrir að trufla hestana, en annað kom á daginn. Bóndinn var bara að kanna hvernig hestarnir hefðu það og vék sér að ferðamönnunum í stutt spjall.

„Hann kom bara við til að spjalla og láta okkur vita að einn af hestunum væri 26 vetra gamall,“ skrifar Mike, og segir þetta bara eitt lýsandi dæmi um gestrisni Íslendinga.

Hægt er að lesa meira um ferðina á vefsíðunni Stuck in Iceland.

Ljósmynd/Mike Whitten
Ljósmynd/Mike Whitten
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert