15-20 bílar fastir á Holtavörðuheiði

Ófært er á Holtavörðuheiði. Mynd úr safni.
Ófært er á Holtavörðuheiði. Mynd úr safni. mbl.is/Björn Jóhann

Enn er ófært á vegum á Vestur- og Norðvesturlandi. Enn er ófært á Öxnadalsheiði en búið er að opna veginn yfir Holtavörðuheiði.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Borgarnesi þurfti að skilja um 15 til 20 bílar eftir á Holtavörðuheiðinni í gærkvöldi. Gekk þó vel að aðstoða ökumenn og koma þeim í skjól.

Eins og mbl.is sagði frá í gær voru 300 til 400 manns strandarglópar við Staðarskála í Hrútafirði í gærkvöldi. Þar á meðal voru fjölmargir háskólanemar sem höfðu verið í skíðaferð. Þegar í ljós kom að heiðin myndi ekki opnast aftur í gærkvöldi var ákveðið að fara með fólkið í Reykjadalsskóla þar sem þau fengu inni. Að sögn lögreglu gekk vel að flytja fólkið frá Staðarskála að skólanum. 

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir og éljagangur eru á Reykjanesbraut og á Sandskeiði. Hálka og snjóþekja er á Mosfellsheiði og á Lyngdalsheiði. Hálka er í uppsveitum á Suðurlandi.

Hálka og hálkublettir eru á Vesturlandi. Ófært er um Bröttubrekku. Búið er að opna veginn um Holtavörðuheiði en einbreitt er á köflum og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

Á Vestfjörðum er lokað á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Klettshálsi, Kleifaheiði og Hjallahálsi en unnið er að mokstri á þessum leiðum. Snjóþekja er á Hálfdán og Mikladal.  Ófært er á Innstrandavegi. Hálka og snjóþekja er á öðrum leiðum á Vestfjörðum.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og éljagangur. Þæfingsfærð er á Þverárfjalli. Þungfært er frá Ketilás í Siglufjörð.

Hálka eða hálkublettir eru á öðrum leiðum á Norðausturlandi. Ófært er á Öxnadalsheiði en verið er að moka.

Á Austurlandi er hálka. Á Suðausturlandi er eitthvað um hálku og hálkubletti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert