Afhentu tölvupósta Wikileaks

Google afhenti bandarískum stjórnvöldum aðgang að tölvupóstum og öðrum gögnum þriggja starfsmanna Wikileaks í tengslum við rannsókn á Wikileaks og stofnanda þess, Julian Assange. Blaðamennirnir sem um ræðir eru Sarah Harrison, Joseph Farrel og Kristinn Hrafnsson. Þetta kemur fram í frétt Kjarnans sem birtir gögnin. Þau hafa einnig birst í völdum, erlendum fjölmiðlum, m.a. breska dagblaðinu The Guardian.

Í skjölunum sem birt eru nú eru meðal annars dómsúrskurðir um leitarheimildir. Leitarheimildirnar eru meðal annars byggðar á grun um njósnir, samsæri og þjófnaði á eigum bandarískra stjórnvalda, og telur Wikileaks að málið beinist að Julian Assange en mögulega einnig gegn fleiri starfsmönnum Wikileaks, segir í frétt Kjarnans.

Eftir dómsúrskurð lét Google bandarísku alríkislögregluna, FBI, fá öll gögn tengd reikningum blaðamannanna þriggja hjá Google. Á meðal gagnanna eru allir tölvupóstar þeirra, einnig allir  póstar sem hefur verið eytt og drög að póstum sem og upplýsingar um hvenær og hvert póstar voru sendir.

Í frétt Kjarnans kemur fram að Google greindi blaðamönnunum frá aðgerðunum gegn þeim þann 23. desember. Lögmenn Wikileaks hafa krafist þess að fá nákvæmar upplýsingar um hvaða gögn voru afhent og hvers vegna Wikileaks og blaðamönnunum hafi ekki verið greint frá málinu fyrr en leitarheimildirnar voru samþykktar 22. mars 2012, þremur árum áður en upplýst var um þær.

Í frétt Guardian um málið segir að í bréfi Wikileaks til stjórnarformanns Goggle, Erics Schmidt, sé afhendingu gagnanna mótmælt og segist Wikileaks vera „forviða og brugðið“ að tölvurisinn hafi beðið í tæp þrjú ár að láta viðskiptavini sína vita af málinu. Því hafi þeir ekki getað staðið vörð um rétt sinn.

Hér má lesa gögnin á vef Kjarnans.

Leitarheimild vegna gagna um Kristinn Hrafnsson, starfsmann Wikilileaks.
Leitarheimild vegna gagna um Kristinn Hrafnsson, starfsmann Wikilileaks. Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert