Knýja breytingar í gegn með „klækjabrögðum“

Urriðafoss í Þjórsá.
Urriðafoss í Þjórsá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands (NSVE) lýsa bæði undrun og vonbrigðum með erindi sem Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn rammaáætlunar um virkjanamál. „Þar er meðal annars lagt til að verkefnastjórnin íhugi virkjanakosti sem eru í núverandi verndarflokki rammaáætlunar og skoði auk þess forsendur jarðvarmavirkjunar á Hveravöllum – svæði sem nýtur friðlýsingar samkvæmt landslögum og á því ekkert heima í rammáætlun,“ segir í ályktun sem stjórn samtakanna hefur sent frá þér.

Erindi Orkustofnunar „raskar friði um rammaáætlun“ og „grefur undan því mikilvæga sáttaferli um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem rammaáætlun er ætlað að tryggja,“ segir ennfremur í ályktuninni.

NSVE hvetur því verkefnisstjórn rammaáætlunar til að fjalla ekki um þá virkjanakosti sem eru í verndarflokki – og voru flokkaðir sem slíkir fyrir aðeins tveimur árum – eins og Orkustofnun mælist til. Um er að ræða virkjanir í Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti og Hólmsá, Norðlingaölduveitu við Þjórsárver og miðlunarlón í Tungnaá (Tungnaárlón),ásamt Brennisteinsfjöllum, þar sem áætlað er að bora þurfi 72 holur, auk niðurdælingarholna, til að halda 60 ára líftíma virkjunarinnar.

Ennfremur fordæma Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands þingsályktunartillögu stjórnarflokkanna um breytingar á rammaáætlun sem fela í sér tilfærslu á fjórum virkjanakostum í nýtingarflokk: þ.e. Holta- og Urriðafossvirkjunum í Þjórsá, Skrokköldu (á miðhálendinu) og Hagavatni við Langjökul.

„Núverandi stjórnarmeirihluti hyggst knýja þessar breytingar í gegn með pólitískum klækjabrögðum án þess að fram fari lýðræðisleg umræða í þinginu, meðal almennings eða af hálfu til þess bærra sérfræðinga. Ef þessi áform ná fram að ganga munu ósnortin svæði og stórbrotin náttúrufyrirbæri heyra sögunni til um alla framtíð.

Að mati NSVE ber okkur siðferðileg skylda til að stöðva þessi áform stjórnarmeirihlutans með öllum tiltækum ráðum,“ segir í ályktuninni.

Og svo segir:

„Hér hefur stríðshanskanum verið kastað í ljótum pólitískum leik!

Skammsýni og fyrirhyggjuleysi mega ekki verða til þess að hagsmunum komandi kynslóða – sem eiga sama rétt til landsins og við – verði fórnað á altari hagvaxtar og stundargróða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert