Skar upp án leyfis

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Virtur skurðlæknir við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi hefur framkvæmt þrjár tilraunakenndar líffæraígræðslur án þess að samþykki heilbrigðisyfirvalda liggi fyrir, þar af eina á þar af eina á Erítreumanni, sem er búsettur á Íslandi og í námi við Háskóla Íslands. Að því er fram kemur í frétt SVT um málið eru tveir sjúklinganna látnir og sá þriðji er enn undir gjörgæslu allan sólarhringinn, þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá aðgerðinni.

Aðgerðirnar, sem framkvæmdar voru á árunum 2011 og 2012, hafa verið tilkynntar til yfirstjórnar Karolinska sem og sænska heilbrigðiseftirlitsins.

Mennirnir látnir en konan lifir

Námsmaðurinn sem um ræðir var 36 ára þegar hann flaug til Stokkhólms árið 2011 til þess að vera skorinn upp af ítalska lækninum Paolo Macchiarini. Maðurinn mun hafa verið með stórt æxli við barkann sem myndi leiða til köfnunar yrði ekkert að gert. Macchiarini og teymi hans vann að gerð gervibarka sem meðhöndlaður hafði verið með stofnfrumum. Hluti hins skemmda öndunarvegar var fjarlægður og skipt út fyrir eins konar rör. Sjúklingurinn vaknaði sjálfur, 24 tímum eftir aðgerðina og gat andað sjálfur, án aðstoðar öndunarvélar, fimm dögum eftir aðgerðina.

Haustið 2013 versnaði þó ástand sjúklingsins að nýju og samkvæmt SVT lést hann í janúar á síðasta ári. Teymið á bakvið ígræðsluna segir ígræðsluna þó ekki hafa verið dánarorsök mannsins.

Þrítugur bandarískur karlmaður og 26 ára tyrknesk kona gengust einnig undir samskonar aðgerðir. Karlmaðurinn dó rúmum fjórum mánuðum eftir aðgerðina. Konan er enn á lífi, en þarf enn að vera undir stöðugu eftirliti lækna, þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá aðgerðinni.

Sóttu ekki um leyfi siðanefndar

Þegar nýjar og óreyndar aðgerðir eru gerðar á fólki þurfa læknar að hafa hugann við fagleg vinnubrögð siðferðislega séð. Til þess að mega birta niðurstöður rannsókna tengdum slíkum aðgerðum þurfa læknar í Svíþjóð að hafa fengið leyfi fyrir aðgerðunum frá sérstakri siðanefnd sænska heilbrigðiseftirlitsins. Meðal annars metur nefndin þá nýju þekkingu sem gæti skapast út frá þeirri áhættu sem felst í aðgerðunum fyrir sjúklingana.

Macchiarini og teymi hans birti rannsókn og lýsingar á gervibarka-aðgerðunum í hinu virta fagriti The Lancet, þrátt fyrir að hafa aldrei fengið tilskilin leyfi frá siðanefndinni eða einu sinni sótt um þau.

Formaður siðanefndarinnar, Eva Lind Sheet segir ljóst að regluverkið hafi brugðist í þessu tilfelli.

Í svari við fyrirspurn SVT segja forsvarsmenn Karolinska að ígræðslurnar hafi verið gerðar til þess að reyna að bjarga lífi sjúklinganna og að ekki hafi verið litið á þær sem rannsóknir. Því trúi sjúkrahúsið að ekki hafi verið þörf á leyfi siðanefndarinnar. Málið er þó enn til rannsóknar hjá heilbrigðisyfirvöldum.

Ofurskurðlæknirinn

Læknirinn Paolo Macchiarini er gjarnan kallaður ofurskurðlæknirinn, samkvæmt frétt SVT. Hann var fenginn sérstaklega til Karolinska til þess að þróa gervilíffæri. Hann er sagður frumkvöðull í rannsóknum á stofnfrumum og öðlaðist frægð um allan heim fyrir að framkvæma svipaða aðgerð fyrir framan myndavélar í Bandaríkjunum, á tveggja ára stúlku frá Suður-Kóreu árið 2013. Stúlkan lést tveimur mánuðum eftir aðgerðina. Þrátt fyrir dauðsföllin og skort á leyfi siðanefndar virðast læknar þó sammála um að gervibarkinn virki, jafnvel í tilfelli stúlkubarnsins.

Uppfært 18:30
Upprunalega stóð að námsmaðurinn sem fjallað er um hafi verið Íslendingur en hann mun hafa verið Erítreumaður, búsettur á Íslandi og í námi við Háskóla Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert